Samningur milli Náttúrufræðistofu Kópavogs og Náttúruminjasafns Íslands

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs og Margrét Hallgrímsdóttir settur forstjóri Náttúruminjasafns Íslands undirrituðu nýlega samstarfssamning um tímabundna varðveislu Náttúrufræðistofunnar á safnkosti Náttúruminjasafnsins.
20121023142614094433.jpg
Málefni Náttúruminjasafns Íslands hafa verið töluvert til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu en staða safnsins sem eitt af þremur höfuðsöfnum í landinu, auk Þjóðminjasafns Íslands og Listasafns Íslands, er ekki upp á marga fiska. Náttúruminjasafnið ræður til að mynda hvorki yfir sýningaraðstöðu sem hæfir hlutverki safnsins né er aðstaða til varðveislu og geymslu á safnkosti boðleg. Náttúruminjasafnið  hefur haft til bráðabirgða aðsetur í gömlu Loftskeytastöðinni við Suðurgötu í Reykjavík og nýtt þar rými í kjallara og á fyrstu hæð.
Í samstarfssamningi Náttúrufræðistofunnar og Náttúruminjasafnsins er kveðið á um að Náttúrufræðistofan muni hýsa allan safnkost Náttúruminjasafnsins sem er í Loftskeytastöðinni, þ. á m. votsýni, þurrsýni, berg- og steindasýni og uppstoppaða gripi. Um eftirlit með safnkostinum mun starfsmaður á vegum Náttúruminjasafnsins sjá og veitir Náttúrufræðistofan fullan aðgang og nauðsynlega aðstöðu til eftirlitsins. Þá er Náttúrufræðistofunni heimil afnot af safnkostinum til rannsókna og sýninga á varðveislutímabilinu eftir nánara samkomulagi þar að lútandi.

Undirbúningur á flutningi safnkosts Náttúruminjasafnsins stendur yfir og verður safnið flutt bráðlega til Náttúrufræðistofunnar þar sem geymsluaðstæður eru betri en í Loftskeytastöðinni. Óvíst er hve lengi Náttúrufræðistofan hýsir safnkostinn en um tímabundna ráðstöfun er að ræða á meðan leitað er leiða til að leysa vanda Náttúruminjasafnsins. Unnið er markvisst að framtíðarlausn á málefnum Náttúruminjasafns Íslands á vegum stjórnvalda. Að undanförnu hafa viðræður farið fram milli ríkis, Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur um möguleikann á því að nýta húsnæði Perlunnar í Öskjuhlíðinni undir starfsemi Náttúruminjasafnsins og virðast þær viðræður miða í rétta átt. Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, greindi frá því á alþingi fyrir skömmu að Perlan kæmi til greina sem aðsetur fyrir Náttúruminjasafn Íslands og að verið væri að skoða möguleikann betur.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

02
des
07
des
Bókasafn Kópavogs
05
des
Bókasafn Kópavogs
05
des
Bókasafn Kópavogs
05
des
Gerðarsafn
06
des
Salurinn
06
des
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

07
des
Bókasafn Kópavogs
07
des
Salurinn
07
des
Gerðarsafn
08
des
Salurinn

Sjá meira