Sett hefur verið upp lítil sýning tileinkurð geitungum í anddyri Náttúrufræðistofunnar. Fjallað er um lífshætti þeirra og m.a. eru geitungabú til sýnis.
Geitungar
Geitungar eru skordýr af ættbálki æðvængja (Hymenoptera) og eru hunangsflugur og maurar nánir ættingjar þeirra. Fremur stutt er síðan geitungar námu hér land eða aðeins um 40 ár. Fjórar tegundir hafa náð að festa sig í sessi; trjágeitungur (Dolichovespula norwegica), holugeitungur (Vespula vulgaris), húsageitungur (Vespula germanica) og roðageitungur (Vespula rufa). Geitungar hafa stungubrodd sem þeir nota ef þeim eða búi þeirra er ógnað. Einungis kvendýrin hafa brodd og er hann um 2 mm að lengd og tengdur eiturkirtli. Stungan og eitrið eru varnartæki, einungis ætluð til þess að valda óþægindum.
Geitungabú – stéttskipt samfélag
Geitungar eru félagsskordýr eins og margir ættingjar þeirra, t.d. maurar og hunangsflugur. Þeir lifa margir saman í búi og hver einstaklingur hefur sitt hlutverk í stéttskiptu samfélagi sem telur drottningar, þernur og karldýr. Í hverju geitungabúi ríkir ein drottning sem stýrir samfélaginu með lyktarhormónum. Hún kemur nýju búi á fót yfirleitt í lok maí þegar hún vaknar af vetrardvala. Þá tekur hún til við að byggja búið og verpir fyrstu eggjunum í fokhelda bygginguna. Úr eggjunum klekst fyrsta kynslóð af þernum sem taka við störfum drottningar og hún einbeitir sér að því að verpa. Allir einstaklingar í búinu eru þannig afkomendur drottningarinnar.
Þernur eru kvenkyns og mun minni en drottningin. Þær sjá um vöxt, viðhald og varnir búsins. Einnig sjá þær um að veiða smærri skordýr og bera í lirfurnar – yngri systkini sín.
Karldýr eru eingetin afkvæmi drottningar og koma fram í búinu þegar líða tekur á sumar. Þeir yfirgefa búin fljótlega og hafa aðeins eitt hlutverk; að frjóvga verðandi drottningar sem koma fram á sama tíma í búunum. Verðandi drottningar yfirgefa einnig búin, makast og leggjast síðan í dvala fram á næsta vor. Drottningarnar einar lifa veturinn af. Segja má að geitungar tjaldi aðeins til eins árs í senn því hvert bú er aðeins notað einu sinni, þ.e. í eitt sumar.
Geitungabú – hagleikssmíð úr pappa
Búin eru úr pappírsmauki sem geitungarnir búa til með því að naga tré og timbur og blanda það munnvatni. Geitungarnir hafa sterka bitkjálka sem nýtast vel við þessa iðju. Ytra byrði búsins er gert úr mörgum pappírslögum og oft má sjá merki um litað timbur í því. Inni í búinu er stafli af láréttum plötum með sexstrendum klakhólfum. Í hólfunum vaxa lirfurnar upp, púpa sig og skríða að lokum út sem fullvaxnir geitungar. Útlit búanna er mismunandi eftir tegundum og þau geta verið á stærð við fótbolta. Bú trjágeitunga hanga gjarnan í greinum trjáa. Bú holu- og roðageitunga eru oftast vel falin í holrýmum, t.d. í jörðu eða grjóthleðslum. Húsageitungar reisa yfirleitt bú innanhúss, svo sem á milli þilja eða inni á húsþökum og háaloftum, en þeir gera sér einnig bú í holum í jörð. Fjöldi einstaklinga í búi er misjafn. Rannsóknir Erlings Ólafssonar á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur leitt í ljós að mestur fjöldi fullvaxinna geitunga í búum á Íslandi er eftirfarandi:
Holugeitungur 6.105
Húsageitungur 2.298
Trjágeitungur 879
Roðageitungur 224
Nánari fróðleik um geitunga og bú þeirra má finna á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands (www.ni.is).