Góðir hlutir gerast í Tjörninni í Reykjavík

Í sumar hafa starfsmenn Náttúrufræðistofu Kópavogs staðið að úttekt á lífríki Reykjavíkurtjarnar og Vatnsmýrarinnar fyrir Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Tilgangurinn er að meta vatnsgæði og ástand lífríkisins í Tjörninni og Vatnsmýrinni. Úttektin nær til nokkurra þátta vistkerfisins, þ.á m. vatnagróðurs, hornsíla, smádýra í svifi og á botni.
Á dögunum stóð sýnataka yfir og vakti vinna starfsmanna stofunnar athygli og áhuga vegfarenda. Margt gleðilegt kom í ljós í sýnatökuferðinni þótt enn eigi eftir að vinna úr sýnum og bera niðurstöður saman við eldri niðurstöður.
Svo virðist sem útbreiðsla vatnagróðurs hafi stórlega aukist frá því sem var fyrir 10–30 árum þegar Tjörnin var talin gróðurlaus. Nú vex fjallnykra og smánykra mjög víða í Suður- og Norðurtjörn. Í Hústjörn við Norræna húsið þekur fjallnykra og þráðnykra botninn og sjást plönturnar greinilega í vatnsyfirborðinu. Einnig finnst verulegur gróður í síkjunum sem umlykja fuglafriðlandið í Vatnsmýrinni, m.a. fjallnykra, þráðnykra og lófótur.
Aukin útbreiðsla vatnaplantna í Tjörninni bendir ótvírætt til þess að lífvænlegra sé fyrir þær nú en áður. Rannsóknir Náttúrufræðistofunnar og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur árið 2007 staðfestu að Tjörnin væri mjög menguð og ástandi verulega ábótavant.
Vatnaplöntur eru mikilvægir frumframleiðendur í vistkerfinu, en jafnframt mynda þær búsvæði fyrir margs konar lífverur, allt frá örverum og smádýrum til fiska og vatnafugla. Einnig stilla þær vatnið þannig að síður gruggast upp úr botni í roki. Því má segja að vatnaplöntur styðji við að aukna fjölbreytni lífs í vatnakerfinu og leiði til bættra vatnsgæða.
Þessu til viðbótar kom í ljós að verulegt magn hornsíla er að finna í Tjörninni og Vatnsmýrinni og er líklegt að tilvist þeirra hafi jákvæð áhrif á kríuvarpið á svæðinu.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

10
jan
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

11
jan
Bókasafn Kópavogs
11
jan
Bókasafn Kópavogs
11
jan
Gerðarsafn
12
jan
Salurinn
13:30

Hamskipti

12
jan
Gerðarsafn
13
jan
Bókasafn Kópavogs
slökunarjóga
14
jan
Bókasafn Kópavogs
15
jan
Bókasafn Kópavogs
15
jan
Bókasafn Kópavogs
16:30

Myndgreining

16
jan
Bókasafn Kópavogs

Sjá meira