Á þessum árstíma verður gjarna vart við fiðrildi sem liggja hreyfingarlaus á húsveggjum tímunum saman. Þetta eru haustfetar.
Haustfetarnir vekja oft athygli enda er flugtíminn allsérstakur eða frá miðjum september og fram í nóvember. Fleira er sérstakt við þetta fiðrildi, en það sem flestum kemur sennilega mest á óvart er að kvendýrið er ófleygt, enda vængir þess aðeins örsmáir stubbar. Trúlega kemur því fæstum fiðrildi í hug þegar kvendýr haustfeta ber fyrir augu.
Lirfur haustfeta klekjast á vorin og lifa á birkilaufi. Sumir hafa eflaust tekið eftir lirfum að láta sig síga til jarðar í silkiþræði snemma sumars. Þar eru á ferð lirfur haustfeta, sem púpa sig síðan í jarðveginum og bíða þess að haustið komi.
Haustfetinn á myndinni er væntanlega að bíða eftir geislum sólar eftir kalda nótt á glugga Náttúrufræðistofu Kópavogs.