Sýningin Skúlptúr/Skúlptúr opnaði sl. laugardag í Gerðarsafni en sýningin er sú fimmta í röðinni.
Sýningaröðin kannar þróun þrívíðrar myndlistar með vísunum í frumkvöðlastarf Gerðar Helgadóttur (1928–1975) innan íslenskrar höggmyndalistar. Titillinn vísar til sýningarinnar Skúlptúr/skúlptúr/skúlptúr, samsýningu 29 listamanna sem haldin var á Kjarvalsstöðum árið 1994 og gaf veigamikið yfirlit yfir höggmyndalist þess tíma.
Listin endurspeglar samfélagið sem við lifum í á hverjum tíma og umhverfið innan listarinnar hefur víkkað í takt við samtímann. Íslensk samtímalist er ekki lengur aðeins sköpuð af listamönnum sem hafa fæðst og alist upp á landinu. Listamenn utan úr heimi leita til Íslands og setjast að til lengri eða skemmri tíma auk þess sem listafólk af íslensku bergi brotið hefur leitað út í heim eftir innblæstri. Þá skapast umhverfi fyrir listafólk með afar ólíkan bakgrunn, ólíka menntun og forsendur, að takast á við sama verkefnið – skúlptúrinn. Slíkt samtal ólíkra radda skapar nýtt samhengi, brýtur viðteknar venjur, sprengir rammann og eykur skilning okkar sem áhorfenda. Stöðugar tilraunir listafólksins með skúlptúrinn sem verkfæri hvetja okkur til íhugunar og umhugsunar. Þau reyna á mörk miðilsins í stærð, tækni, rými, viðhorfi og hlutverki okkar sem áhorfenda. Hér er vitnað í sýningaskrána en textinn er eftir þær Brynju Sveinsdóttur, forstöðumann Gerðarsafn og annan sýningastjóranna og Cecilie Gaihede sýningarstjóra.
Í opnunarræðu sinni sagði Brynja Sveindóttir, forstöðmaður safnins og annar sýningastjóranna að verkin væru m.a. tilraun til fanga náttúrulegt umhverfi og vísun í það manngerða. Listamennirnir tala á einhvern hátt um stöðu skúlptúrsins en enginn samnefnari er í valinu á þeim. Listamennirnir eru; Andreas Brunner, Anna Líndal, Claire Paugam, Elísabet Brynhildardóttir, Eygló Harðardóttir, Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar, Ingrid Ogenstedt, Ívar Glói Gunnarsson Breiðfjörð, Martha Haywood og Raimonda Sereikaitė – Kiziria.
Þessir 10 listamenn sem koma úr ólíkum áttum eiga það þó sameiginlegt að fást við sama miðilinn, skúlptúrinn og þótt útkoman virðist afar ólík við fyrstu sýn er sterkur samhljómur á milli þeirra. Í sýningasölum safnsins hefur skapast gagnvirkur vettvangur til að velta fyrir sér samtímanum, raunveruleikanum og umhverfinu með fígúratívri eða abstrakt framsetningu. Sagði Cecilia í opnunarræðu sinni og bætti við að þetta verkefni hefði verið einstaklega gefandi. „Við höfum fengið tækifæri til að vinna með listamönnum sem er fagmenn út í fingurgóma, láta hugan fara á flug og nota ímyndaaflið í skemmtileg og nærandi samtöl um efnið með skúlptúrinn að leiðarljósi.,,
Það var mikil samhljómur með þeim Brynju og Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs en Ásdís opnaði sýninguna formlega. „Sýningin gefur okkur innsýn inn í heim skúlptúrsins þar sem margar ólíkar hugmyndir mætast. Verkin hvetja okkur til að vera forvitin og nálgast umhverfi okkar á nýjan hátt. Það er einmitt máttur menningar að gefa okkur nýja sýn á hlutina og að opna augu okkar fyrir annars konar skilningi og skynjun. Auðugt lista- og mannlíf veitir innblástur og stækkar sjóndeildarhringinn. Menning er grunnstoð allra samfélaga þar sem hún gerir okkur kleift að tengjast bæði umhverfi okkar og hverju öðru. Menning og listalíf spilar lykilhlutverk í því að búa til fallegan bæjarbrag sem eykur ímynd og hróður Kópavogs og gerir hann eftirsóknarverðari stað til að dvelja í.,,
Sýningin stendur til 07.01.2024