Anna Rós Árnadóttir hlaut Ljóðstafinn 2025

Ljóðstafur Jóns úr Vör er haldinn af Menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar en efnt var til samkeppninnar fyrst árið 2002 í minningu skáldsins Jóns úr Vör. Ljóðstafinn hlaut að þessu sinni Anna Rós Árnadóttir fyrir ljóðið Skeljar og var það Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar sem afhenti Önnu Rós ljóðstafinn.

Anna Rós Árnadóttir handhafi Ljóðstafs Jóns út Vör 2025.

Ragnar H. Blöndal hlaut önnur verðlaun fyrir ljóðið Japanskir morgnar og þriðju verðlaun hlaut Kari Ósk Grétudóttir fyrir ljóðið Aðrar lendur.

Að auki hlutu fimm ljóð sérstaka viðurkenningu dómnefndar. Aukaleikari greinir hlutverk sitt eftir Jón Hjartarson; Draumur um Þórberg eftir Baldur Garðarsson; Speki tímavillinga eftir Bjargeyju Ólafsdóttur, Sverðgleypir eftir Sunnu Dís Másdóttur og Svipting eftir Völu Hauksdóttur.

Alls bárust um 270 ljóð í keppnina að þessu sinni en þau mega ekki hafa birst áður og skulu send inn undir dulnefni höfundar. Dómnefndina í ár skipuðu þau Guðrún Hannesdóttir, Þórður Sævar Jónsson og Þórdís Helgadóttir (formaður).

Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogsbæjar

Við sama tilefni voru veitt verðlaun í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogsbæjar og var dómnefnd sú sama. Fyrstu verðlaun hlaut Jóhanna Katla Kristjánsdóttir, 6. bekk Kársnesskóla, fyrir ljóðið Hugleiðsluljóð. Önnur verðlaun hlaut Friðrik Bjarki Sigurðsson, 6. bekk Salaskóla fyrir ljóðið „Veðrið (Hæka) og þriðju verðlaun hlaut Kristjana Lillý Pétursdóttir fyrir ljóðið Hríðin. Viðurkenningar hlutu Máni Bergmann Sigfússon, 8. bekk Lindaskóla, fyrir ljóðið Andheitið, Matthías Haukur Daníelsson, 6. bekk Kársnesskóla, fyrir ljóðið Dafnandi stjörnur, Gabríela Sif O. Þórhallsdóttir,  10. bekk Lindaskóla, fyrir ljóðið Dansandi tunglið, Kristín Vala Stefánsdóttir, 10. bekk Lindaskóla, fyrir ljóðið Jólanótt, Eva María Ríkharðsdóttir, 8. bekk Lindaskóla, fyrir ljóðið Lífið, Eva Benediktsdóttir og Fjóla Breiðfjörð Arnþórsdóttir, 6. bekk Salaskóla, fyrir ljóðið Ströndin og Inga Bríet Valberg, 6. bekk Snælandsskóla fyrir ljóðið Von.

Jóhanna Katla Kristjánsdóttir, nemandi í 6. bekk í Kársnesskóla bar sigur úr býtum með Hugleiðsluljóðið í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs

Sigurskáldið

Anna Rós Árnadóttir er fædd árið 1998 á Selfossi en hún er búsett í Reykjavík. Hún stundar meistaranám í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands og er með BA gráðu í sama fagi. Meðfram námi starfar hún við útlánadeild Landsbókasafns Íslands. Anna Rós er meðlimur ljóðahópsins MÚKK, félagsskap ungra skálda sem hefur látið til sín taka síðustu misseri.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri, Luna Grétarsdóttir, systir Kari Óskar Grétarsdóttir sem gat ekki verið viðstödd, en hún var í þriðja sæti, Anna Rós Árnadóttir handihafi Ljóðstafsins, Ragnar H. Blöndal í örðu sæti og Elísabet Berglind Sveinsdóttir, formaður menningar- og mannlífsnefndar.

Rökstuðningur dómnefndar

Ljóðstafur Jóns úr Vör árið 2025 er veittur Önnu Rós Árnadóttur fyrir ljóðið Skeljar.

Sigurljóðið er í senn seiðandi og blátt áfram. Skáldið yrkir af nákvæmni og næmni fyrir tungumálinu, sem er listilega einfalt og flæðir áreynslulaust. En undirtónninn er djúpur og uggvænlegur.

Þetta er ljóð um lífsháska, kvíða og óumflýjanlegt skapadægur. Strax í upphafi býður óvænt staðhæfing okkur að íhuga samband okkur við hafið, sem er okkur Íslendingum nærtæk og óhjákvæmileg birtingarmynd ógnar. Eftir því sem á líður færist náttúruaflið nær, með stigvaxandi háska.

Ljóðið bregður upp skýrum, ágengum og jafnvel skondnum myndum og segir eftirminnilega sögu, án þess þó að endanleg merking þess sé höggin í stein. Það talast á við bæði þjóðsagnaarfinn og bókmenntasöguna. Loks slær skemmtilega óræður og óvæntur snúningur í síðasta erindinu ískyggilegan tón og festir ljóðið rækilega í minni.

skeljar

öll hús

eru hús við sjóinn

ef maður bara fylgir lögnunum

nógu langt eftir

stundum

þegar hún krýpur á

köldum flísunum

finnst henni hún heyra

daufan óm af

fuglagargi

upp úr klósettskálinni

og þá hugsar hún um söguna

af sjómanninum

sem var spáð sjódauða

og hætti að róa út

hvernig hann flutti

eins langt inn í land

og hann komst

hætti að borða sjávarfang

varð tortrygginn

út í hvern einasta

vota stein

sem varð á vegi hans

í mörg ár

þangað til einn daginn

að hann sofnaði á verðinum

bauð tveimur skipbrotsmönnum gistingu

hún hugsar um sjóstakkana þeirra

hvernig þeir hengdu þá upp

og hvernig það draup af þeim

á forstofugólfið

yfir nóttina

um hreyfingarlaust

andlit mannsins í pollinum

í dögun

að lifa

er að sofna á verðinum

að deyja

er að sofna á verðinum

eins og járnsmiður

hugsar hún

sem gerir vettvangsrannsóknir

á skósólum

eins og konu

sem er spáð sjódauða

en flytur samt

inn í hús

þakið skeljum

Hér má sjá Önnu Rós lesa upp sigurljóðið.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

21
jan
25
jan
Bókasafn Kópavogs
22
jan
Bókasafn Kópavogs
22
jan
Bókasafn Kópavogs
22
jan
Bókasafn Kópavogs
22
jan
Náttúrufræðistofa Kópavogs
23
jan
Bókasafn Kópavogs
23
jan
Salurinn
24
jan
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

25
jan
Bókasafn Kópavogs
25
jan
19
apr
Gerðarsafn
25
jan
Gerðarsafn
25
jan
Bókasafn Kópavogs

Sjá meira