Heiðurslistamaður Kópavogs 2017

Margrét Örnólfsdóttir

Rithöfundur

Margrét lauk 8. stigi í píanóleik frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1994 og var árin á undan hljómborðsleikari Sykurmolanna. Næstu ár starfaði hún sjálfstætt sem tónlistarmaður og samdi tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir, gaf út barnaplötur og fleira.
 
Margrét vann einnig lengi við dagskrárgerð fyrir útvarp og sjónvarp en frá árinu 2000 hefur hún verið afkastamikill handritshöfundur. Nú síðast skrifaði hún þáttaröðina Fanga sem naut mikilla vinsælda þegar hún var frumsýnd í byrjun árs og hefur verið seld til fjölda sjónvarpsstöðva í Evrópu. Margrét hefur einnig skrifað fyrir leiksvið, leikgerð að Lísu í Undralandi sem sett var upp hjá Leikfélagi Akureyrar í fyrravetur, einleikinn Kameljón og útvarpsverkið Skuggablóm sem flutt var á RÚV í fyrra.
 
Margrét hefur skrifað skáldsögur fyrir börn og unglinga, meðal annars bókaflokkinn um Aþenu og hafa bækur hennar unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga.
 
Margrét hefur verið formaður Félags leikskálda og handritshöfunda frá árinu 2013 auk þess að sitja í stjórn Norrænu leikskáldasamtakanna og stjórn Bandalags íslenskra listamanna.