Breytingar í vistkerfi Þingvallavatns

Í nýrri skýrslu á vegum Náttúrufræði- stofu Kópavogs um ástand Þingvalla- vatns kemur fram að umtalsverðar breytingar hafa átt sér stað í efna- og eðlisþáttum og lífríki vatnsins á undanförnum áratugum. Þingvallavatn hefur hlýnað, styrkur næringarefna aukist, þörungamagn vaxið og rýni minnkað. Breytingarnar eru raktar bæði til hnattrænna og staðbundinna þátta. Þrátt fyrir þessar breytingar er ástand Þingvallavatns enn mjög gott skv. viðmiðum fyrir umhverfisbreytur í reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Ef heldur fram sem horfir er hins vegar hætt við að margrómaður blámi og tærleiki Þingvallavatns muni rýrna með tilheyrandi skakkaföllum fyrir lífríkið.
Árið 2007 hófst vöktun á lífríki og vatnsgæðum Þingvallavatns. Verkefnið er á vegum Umhverfisstofnunar, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Um er að ræða árlega sýnatöku og mælingar og er vöktuninni skipt í þrjá verkþætti. Jarðvísindastofnun Háskólans hefur séð um efna- og eðlisþætti í írennsli og frárennsli Þingvallavatns, Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur séð um lífríki og efna- og eðlisþætti í vatnsbol vatnsins og Veiðimálastofnun hefur ásamt Náttúrufræðistofunni séð um rannsóknir á murtu.
Litið er á vöktunina sem mikilvægt tæki til að stuðla að verndun á vistkerfi Þingvallavatns, en markmið vöktunarinnar er að kortleggja ástand og breytingar sem kunna að verða á lífríki og efna- og eðlisþáttum vegna hugsanlegra álagsþátta jafnt af manna völdum sem náttúrunnar. Verndargildi Þingvallavatns er mjög mikið á landsvísu og í hnattrænu samhengi, m.a. vegna tilvistar einlendra tegunda og samsvæða þróunar bleikjuafbrigðanna fjögurra í vatninu. Til verndar Þingvallavatni gilda ákvæði samkvæmt landslögum og reglugerðum sem og alþjóðlegum samþykktum.
Í skýrslunni sem hér er kynnt til sögunnar er veitt yfirlit yfir helstu niðurstöður fyrstu fimm ár vöktunarverkefnisins. Meginniðurstöður eru reifaðar og bornar saman við eldri gögn og m.a. rýnt í áður óbirt vatnshitagögn frá Steingrímsstöð.
Vöktunin staðfestir að marktækar breytingar hafa átt sér stað í lífríki og efna- og eðlisþáttum Þingvallavatns undanfarna áratugi. Þingvallavatn hefur hlýnað, styrkur uppleysts nítrats (NO3) aukist í írennslinu, magn þörungasvifs (blaðgrænu-a) aukist í vatnsbolnum og rýni vatnsins minnkað í kjölfarið. Styrkur fosfórs í írennslisvatni Silfru og Vellankötlu hefur aftur á móti minnkað. Orsakir þessara breytinga eru raktar bæði til hnattrænna og staðbundinna þátta.
Hlýnun vatnsins á tímabilinu 1962–2011 fellur vel að þróun ársmeðalhita á Íslandi í kjölfar hlýnandi loftslags. Vatnið hefur hlýnað flesta mánuði, mest þó í júní–ágúst um 1,23–1,52°C að meðaltali í mánuði. Vegna hlýnunar leggur Þingvallavatn nú orðið sjaldan. Samhliða hlýnuninni virðast hitaskil í vatninu með tilheyrandi lagskiptingu hafa eflst.
Styrksaukningin í nítrati nemur um 60% og er rakin m.a. til aukinnar loftborinnar ákomu niturs, en ákoman virðist hafa allt að því tvöfaldast á sl. 3–4 áratugum. Aukningin í magni þörungasvifs frá því um 1975 og fram á fyrsta áratug þessarar aldar er tvö- til ríflega fjórföld og mest að hausti til. Þar sem frumframleiðsla þörungasvifs í Þingvallavatni er takmörkuð af nitri og styrkur næringarefna almennt í lægri kantinum leiðir jafnvel lítil aukning í niturákomu til merkjanlegrar vaxtaraukningar meðal þörunganna.
Þrátt fyrir breytingar í magni þörungasvifs er ekki að sjá að tegundasamsetning þörungaflórunnar hafi breyst. Ríkjandi tegundir nú eins og fyrir um 110 árum eru stórvaxnir kísilþörungar á borð við sáldeskingana Aulacoseira islandica f. curvata, A. islandica og A. italica. Ekki er heldur að sjá að dýrasvif eða murta hafi tekið miklum breytingum.
Vöktunin staðfestir að vatnsgæði Þingvallavatns eins og þau eru skilgreind skv. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns eru mjög góð enda þótt þrjár umhverfisbreytur af tíu, þ.e. magn þörungasvifs (blaðgrænu-a) og styrkur uppleysts heildarfosfórs (Tot-P) og króms (Cr) hafi verið yfir tilskildum viðmiðunarmörkum fyrir besta ástandsflokk A skv. reglugerð nr. 650/2006 um verndun vatnasviðs Þingvallavatns. Á árunum 2007–11 var magn blaðgrænu-a úti í vatnsbolnum á ársgrunni í allt að 60% tilfella í ástandsflokki B (2–5 μg/l) og allt að 20% í ástandsflokki C (5–10 μg/l). Styrkur Tot-P mældist í írennsli við Silfru og Vellankötlu og úti í vatnsbolnum í öllum tilfellum á mörkum ástandsflokks B (10–30 μg/l) og C (31–50 μg/l). Styrkur króms í írennslinu féll í öll skipti í ástandsflokk B (0,3–5,0 μg/l).
Nokkrar tillögur eru kynntar í skýrslunni til úrbóta í vöktunarverkefninu. Einkum er brýnt að rannsaka kransþörungabeltið vegna minnkandi rýnis í vatninu og kanna setmyndun m.t.t. ákomu efna. Þá er mikilvægt að fjölga mælingum á næringarefnum í írennslinu til að varpa ljósi á árstíðabreytileika í styrk efnanna.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

11
jan
Bókasafn Kópavogs
11
jan
Bókasafn Kópavogs
11
jan
Gerðarsafn
12
jan
Salurinn
13:30

Hamskipti

12
jan
Gerðarsafn
13
jan
Bókasafn Kópavogs
slökunarjóga
14
jan
Bókasafn Kópavogs
15
jan
Bókasafn Kópavogs
15
jan
Bókasafn Kópavogs
16:30

Myndgreining

16
jan
Bókasafn Kópavogs
17
jan
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

Sjá meira