Flanerí Kóp eru hljóðgöngur um Kópavog í formi hlaðvarps sem njóta má hvenær sem er. Fyrsta hljóðgangan fór í loftið á Vetrarhátíð í Kópavogi, 5. febrúar og verður aðgengileg um ókomna tíð. Það eina sem þarf er klæðnaður eftir veðri og heyrnartól, efninu er hlaðið niður af vefsíðunni flaneri.is og lagt í ævintýraleiðangur. Efnið er ókeypis og öllum aðgengilegt.
Frá Sólarslóð til Kópavogskirkju
Flanerí -hópinn skipa Aðalbjörg Árnadóttir, sviðslistakona, Snorri Rafn Hallsson, heimspekingur og dagskrárgerðarmaður, Elísabet Jónsdóttir, grafískur hönnuður og Rannveig Bjarnadóttir, vefstjóri og sjúkraþjálfari. Hópurinn fékk á dögunum styrk frá Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar til að framleiða hljóðgöngur um sögu og samtíma Kópavogs og er fyrsta gangan helguð útilistaverkum í nágrenni Menningarhúsanna.
Gangan hefst við Bókasafn Kópavogs þar sem Sólarslóð, stórt útilistaverk Teresu Himmer á Hálsatorgi blasir við. Frá Sólarslóð liggur leið í átt Kópavogskirkju þar sem gluggar Gerðar Helgadóttur og nærliggjandi útilistaverk mynda meginþráðinn í frásögninni. Í hljóðefninu fléttast saman viðtöl, frásagnir, umhverfishljóð, tónlist og skáldskapur en í þessu fyrsta hljóðvappi Flanerís koma meðal annars fram Sigurður Arnarson, sóknarprestur, Jón Proppé, heimspekingur og Teresa Himmer, myndlistarkona. Hið þekkta öðlast nýjan blæ, hlustendur fara í ferðalag á kunnuglegar en jafnframt framandi slóðir í persónulegum og ljóðrænum hljóðheimi.
Framundan eru fleiri göngur frá Flanerí-hópnum sem fékk styrk til að framleiða fjórar hljóðgöngur um Kópavog. Sjá nánar á www.flaneri.is.
Flanerí KÓP er styrkt af Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.