Barnamenningarhátíð í Kópavogi hófst í dag, þriðjudaginn 18. apríl. Í Smáralindinni kl. 11:11 opnaði Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri sýningu Vatnsdropans sem ber heitið Náttúran sem sögupersóna. Þar gefur á að líta um 300 verk eftir um 500 nemendur í grunnskólum Kópavogs byggð á norrænum barnabókmenntum eftir H.C. Andersen, Tove Jansson og Astrid Lindgren í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 15, Líf á landi. Vatnsdropinn er þriggja ára alþjóðlegt barnamenningarverkefni sem Kópavogur á frumkvæðið að og er í samstarfi við H.C. Andersensafnið í Danmörku, Múmínsafnið í Finnlandi og Undraland Ilon’s Wikland í Eistlandi. Sýningin í Smáralind lokar öðru þemaári Vatnsdropans sem hófst síðastliðið vor með listahátíð sem Ungir sýningarstjórar stóðu fyrir í menningarhúsum Kópavogsbæjar.









