Fjölbreytt og skemmtilegt menningarhaust framundan

Viðburðadagskrá menningarhúsanna haustið 2023 liggur nú fyrir en framundan er fjölbreytt og skemmtilegt menningarhaust þar sem öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Viðburðadagskrá menningarhúsanna haustið 2023 liggur nú fyrir en framundan er fjölbreytt og skemmtilegt menningarhaust þar sem öll ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Bóka- og prjónaklúbbar, list- og handverkssmiðjur, tónleikar af alls konar tagi, fyrirlestrar og listamannaleiðsagnir eru á meðal þess sem boðið verður upp á en dagskráin hefst með haustfögnuði laugardaginn 2. september.

Fíflagangur í haustfögnuði

„Við heilsum hausti með dúnmjúkri arabískri sveiflu, ævintýrastuði og fíflagangi“ segir Elísabet Indra Ragnarsdóttir, verkefna- og viðburðastjóri menningarmála. „Þarna erum við að slá upptaktinn að vetrinum og því sem framundan er. Myndlistarhópur Hlutverkaseturs mun til dæmis stýra úrvals skemmtidagskrá sem hverfist um fífilinn; þar verður boðið upp á fíflakast, fíflakrítar, fíflalega trönumálun og fíflaratleik en hópurinn mun opna sýninguna Fíflast með fíflum hér í menningarhúsunum á vegum Listar án landamæra 16. september. Þetta er annað árið í röð sem menningarhúsin taka þátt í List án landamæra og við erum mjög stolt af þessu samstarfi“ segir Elísabet Indra.

Arabísk sveifla og Þykjóleikar

Á laugardaginn verður líka dásamlegt arabískt stuð og sveifla í samstarfi við hjálparsamtökin Get together og Félag kvenna frá Marokkó. Myndlistarkonurnar Yara Zein og Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir leiða arabíska listsmiðju, hægt verður að fá sér hið sívinsæla henna-tattú, arabískt kruðerí verður á boðstólum og þau Tabit Lakh og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir flytja tónlist frá Mið-Austurlöndum og kynna í leiðandi spennandi stórtónleika sem fyrirhugaðir eru á Vetrarhátíð 2024.

„Þeir Gói Karlsson og Þröstur Leó Gunnarsson stíga líka á fjalir Salarins með glænýja og spennandi ævintýradagskrá fyrir alla fjölskylduna núna á laugardaginn“ bætir Elísabet Indra við, „hönnunarteymið ÞYKJÓ býður upp á vandaða fjölskyldusmiðju í tengslum við glæsilega sýningu sína í Gerðarsafni og svo geta krakkar og fjölskyldur komið í krakkaleiðsögn  um sýningu Rósu Gísladóttur, FORA, sem nú stendur yfir í safninu og hefur fengið frábærar viðtökur. Ókeypis er á alla viðburði dagsins og öll hjartanlega velkomin“ segir Elísabet Indra en haustfögnuðurinn stendur yfir frá klukkan 12 og fram eftir degi.

Langspilsrapp og jólapeysufjör

Alla laugardaga næstu mánuði verður boðið upp á smiðjur þar sem hægt verður að spreyta sig á fjölbreytilegu handverki, kynna sér undur vísindanna og skapa listaverk en smiðjurnar eru haldnar á víxl í Náttúrufræðistofu, Gerðarsafni, Salnum og  Bókasafni Kópavogs, aðalsafni og Lindasafni. „Í fjölskyldustundunum verður hægt að smíða langspil, búa sér til jólapeysu, gera sjávargrafík og búa til rapplag, svona svo fátt eitt sé nefnt“ segir Elísabet Indra og bætir við að frábær hópur leiðbeinenda haldi utan um þessar metnaðarfullu smiðjur.

Notalegir jazztónleikar og glæpasagan í nýju samhengi

Viðburðaraðirnar  Menning á miðvikudögum og Foreldramorgnar á fimmtudögum hefja einnig göngu sína núna í september en þar verður boðið upp á vandaða fyrirlestra, fjölbreytta tónleika, listamannaleiðsagnir og Kársnesrölt svo dæmi séu nefnd. Auk þess munu nýir fastir liðir verða á dagskrá; tónlistarhópurinn SKERPLA verður með mánaðarlega tónleika inni í sýningunni Skúlptúr / Skúlptúr í Gerðarsafni og Söngdeild FÍH mun bjóða upp á notalega jazztónleika í hádeginu, síðasta fimmtudag hvers mánaðar á Bókasafni Kópavogs.

„Okkar skeleggi bæjarlistamaður, Lilja Sigurðardóttir, rithöfundur, heldur svo úti viðburðaröðinni Bókaklúbbur bæjarlistamannsins en þar setur hún glæpasöguna í frjótt og skemmtilegt samhengi. Fyrsti viðburðurinn í röðinni fór fram í tengslum við Hinsegin daga og tókst frábærlega vel og framundan eru fjölbreyttir krimmaviðburðir svo sem ritsmiðja,  spurningakeppni og glænýjar glæpasögur í jólabókaflóðinu“ segir Elísabet Indra.

„Dagskráin framundan er full af fjöri og andlegri næringu. Við erum í góðu samstarfi við ólíkar hátíðir og menningarstofnanir og fáum til liðs við okkur frábæra leiðbeinendur, fræði- og svo úr verða mjög metnaðarfullir og fjölbreyttir viðburðir. Ég hvet öll til að kynna sér dagskrána og koma sem oftast í menningarhúsin í Kópavogi“ segir Elísabet Indra að lokum.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

15
jan
Bókasafn Kópavogs
15
jan
Bókasafn Kópavogs
16:30

Myndgreining

16
jan
Bókasafn Kópavogs
17
jan
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

18
jan
Bókasafn Kópavogs
18
jan
Náttúrufræðistofa Kópavogs
18
jan
Gerðarsafn
14:00

Leiðsögn

20
jan
Bókasafn Kópavogs
slökunarjóga
21
jan
Bókasafn Kópavogs
21
jan
Salurinn
Jón úr Vör
21
jan
25
jan
Bókasafn Kópavogs

Sjá meira