Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra fyrir hönd Barnamenningarsjóðs úthlutaði styrkjum fyrir árið 2024 í Safnahúsinu síðastliðinn sunnudag.
Hlutverk Barnamenningarsjóðs er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.
Kópavogsbær hlaut 4 styrki upp á alls 4.688.000 í ár.
Tímamót og fögnuður: Raddir barna í Kópavogi
1.725.000
Barnakórar í Kópavogi frumflytja átta glæný kórverk á tónleikum í Salnum í Kópavogi í október 2024 í tilefni af 25 ára afmæli Salarins. Verkin eru samin út frá sjónarhóli barnsins og helmingurinn með þátttöku þeirra. Söngvararnir ungu koma úr Hörðuvallaskóla, Kárnesskóla og Smáraskóla en tónskáldin eru Benni Hemm Hemm, Ingibjargir (Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir og Ingibjörg Fríða Helgadóttir), Jóhann G. Jóhannsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Nína Solveig Andersen, Tryggvi M. Baldvinsson, Úlfur Eldjárn og Þóra Marteinsdóttir.
Fjölþjóðlegir tónleikar á Barnamenningarhátíð í Salnum
1.340.000
Tónleikar með arabísku og íslensku ívafi undir stjórn Thabit Lakh og Sigrúnar Kristbjargar Jónsdóttur í Salnum á Barnamenningarhátíð 2025 með þátttöku fjölþjóðlegs hóps barna.
Together : Fjöltyngdar listsmiðjur fyrir börn og fjölskyldur
960.000
Together. Fjöltyngdar listsmiðjur fyrir börn og fjölskyldur. Samstarfsverkefni menningarsviðs Kópavogsbæjar og Hjálparsamtakanna GETA.
Bláum lífi í þjóðsögurnar
663.ooo
Bókasafn Kópavogs ætlar að kynna þjóðsögur Jóns Árnasonar fyrir börnum og unglingum á nýstárlegan og skemmtilegan hátt og halda þessum sagnaarfi okkar á lofti. Börnin fá tækifæri til að vinna með þjóðsögurnar í ýmsum áhugaverðum listasmiðjum, sögustundum ofl. Verkefnið er í samstarfi við grunnskóla og leikskóla í Kópavogi.
„Við erum auðvitað í skýjunum með þessa styrki“ sagði Elísabet Indra Ragnarsdóttir, verkefnastjóri viðburða og hátíða hjá Kópavogsbæ. „Þetta gerir okkur kleift að bæta enn betur í barnamenningu hér í Kópavogi en við leggjum mikinn metnað að bjóða upp á gæðaviðburði fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Við leggjum líka mikið upp úr inngildingu og sést á úthlutunum að sjóðurinn er okkur sammála þegar litið er yfir þau verkefni sem fengu styrk. Það er því óhætt að segja að það sé spennandi barnamenningarár framundan í Kópavogi.“
Eins má nefna að Hamraborgarfestival fékk milljón króna styrk fyrir viðburðum fyrir börn á hátíðinni. Lista- og menningarráð styrkir hátíðina sem fer fram í sumar hér í Hamraborginni í Kópavogi.
Hér má sjá lista yfir þau verkefni sem fengu styrki.