Það var sannkölluð venesúelsk hátíð á Bókasafni Kópavogs á löngum fimmtudegi, þar sem margt var brallað og gleðin var við völd.
Byrjað var á smiðjum þar sem börn og fullorðnir föndruðu venesúelska fánann og armbönd. Afurðirnar voru svo notaðar til að skreyta bókasafnið hátt og lágt fyrir komandi gleði og hátíðarhöld. Á meðan á smiðjunum stóð kom leikarinn og dansarinn Abdias Santiago og sagði sögur á spænsku.
Boðið var upp á heimatilbúinn venesúelskan mat eftir sögustundina og voru fjölmargir kokkar og hjálparkokkar saman komnir til að undirbúa og gera veisluna sem veglegasta, enda var boðið upp á aðalrétti, eftirrétti, jólamat og venesúelskt kaffi og límonaði, sem allt smakkaðist að sjálfsögðu dásamlega vel.
Maturinn var veglegur og dugði til að metta öll þau sem saman voru komin, en að honum loknum steig á stokk dúettinn Galaxia Paraíso, sem skipaður er þeim Algleidy Zerpa Canas og Alfredo Flores. Þau spiluðu venesúelska þjóðlagatónlist á strengjahljóðfæri, börn á svæðinu sungu og voru stigin ófá dansspor. Tónleikarnir voru afar vel sóttir og eru jafnframt hluti af tónleikaröðinni Heimstónlist á bókasafninu, en áður hafði Elkhem Fakouri (hún/hennar) flutt persneska tónlist á hljóðfærið Ney. Ney er stórmerkilegt hljóðfæri, meðal annars vegna þess að saga þess nær 4.500 ár aftur í tímann og það er því elsta hljóðfæri sem vitað er um að sé enn í notkun.
Umtalað var eftir hátíðina hve stemningin var falleg og björt og það lifnaði heldur betur yfir bókasafninu meðan á henni stóð.
Hátíðin er hluti af verkefninu Bókasafnið í fjöltyngdu samfélagi sem er styrkt af Bókasafnasjóði og Nordplus.