Lestrarhvetjandi bókasafn

Sumarlesturinn 2025 heppnaðist gríðarlega vel á Bókasafni Kópavogs sem sjá má á því að:

  • Börn í Kópavogi lásu samtals í 1.919 klukkustundir skv. innsendum happamiðum. Því má líkja við að þau hafi lesið samfellt í 80 sólarhringa.
  • Unglingar lásu samtals 120 bækur í fullri lengd sem þau skiluðu inn umsögnum um.

Síðan þá hefur Bókasafn Kópavogs lagt enn meira upp úr því að bjóða upp á fjölbreytta viðburði sem hvetja börn til lesturs og til að njóta góðra bóka og með því stutt enn frekar við lestur barna og ungmenna.

Hvernig getur bókasafn stutt við lestur barna og ungmenna?

Bókasafn Kópavogs hefur farið í markvissa og fjölbreytta vinnu til að ná þessum skemmtilega árangri og hikar ekki við að prófa nýja hluti. Samstarf við skólabókasöfnin er þó mögulega kjarninn í þessari velgengni.

Skólabókasöfnin ómissandi þáttur

„Við á Bókasafni Kópavogs eigum meðal annars gott og farsælt samstarf við skólabókasöfnin í Kópavogi. Við bjóðum til dæmis forsvarsmönnum skólabókasafnanna til okkar reglulega svo við getum stillt saman strengi í að hvetja börn í Kópavogi til lesturs og að njóta bóka. Við erum síðan í reglulegum samskiptum við skólabókasöfnin þess á milli til þess að koma öllum upplýsingum um það sem er í boði í Menningarhúsunum í Kópavogi sem tengist lestri ásamt öðrum viðburðum á safninu áfram til skólabarna. Við finnum hversu mikilvægt þetta samstarf hefur verið, svo sem á því hvað okkur tókst að fá mörg börn til að taka þátt í sumarlestrinum. Skólabókasöfnin eru orðin framlenging af okkur inn í skólana og án þeirra hefði þetta ekki tekist svona vel, enda skilar samstillt átak sér mun betur,“ segir Gréta Björg, deildarstjóri barnadeildar.

Fjölbreyttir viðburðir og stór barnadeild

Eyrún Ósk Jónsdóttir, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar tekur orðið. „Við höfum gripið til ýmissa aðgerða til þess að stuðla að læsi barna. Alla miðvikudaga kl. 10:00 bjóðum við upp á skynjunarsögustundir fyrir leikskólahópa. Í skynjunarsögustundum segjum við sögur og notum liti, hreyfingu, endurtekningar, brúður, hljóðfæri og alls konar aðra muni til að auðvelda börnum að einbeita sér að sögunni og tileinka sér orðin. Við höfum séð að þessar sögustundir henta fjölbreyttari hópi barna, t.d. börnum með ýmsar taugaraskanir og fjöltyngdum börnum sem eiga mun auðveldara með að einbeita sér að sögunum og njóta þeirra eftir að við byrjuðum á þessu.“ Boðið er upp á opnar skynjunarsögustundir síðasta miðvikudag í mánuði og henta þær vel fyrir 0-5 ára börn og foreldra þeirra.

Árlega koma nemendur í 4. og 9. bekk í grunnskólum Kópavogs í heimsókn á safnið og hitta rithöfund, en tilgangurinn er einnig að kynna safnið fyrir þeim sem griðastað þar sem þau eru alltaf velkomin.

Í desember er svo öllum elstu deildum leikskólanna í Kópavogi boðið í jólasögustund, fræðslu frá Náttúrusafni Kópavogs, þau dansa í kringum jólatré og syngja. „Svona viðburðir efla tengsl okkar við leikskólana og mynda þessa brú á milli barnanna og bókanna,“ segir Gréta.

Í fyrra opnaði ný barnadeild á safninu og var mikil vinna lögð í að öll börn upplifi sig velkomin á bókasafninu og geti notið sín. Mikið úrval er af léttlestrarbókum og myndríkum bókum. Boðið er upp á fjölmarga viðburði sem miða að því að börn upplifi bókasafnið sem sinn stað, heimili að heiman, og þannig er það strax frá fyrstu mánuðum í lífi barna að tengja saman bækur og börn.

Metnaðarfullt ungmennastarf

Kristín María Kristinsdóttir, verkefnastjóri ungmennastarfs, segist merkja auknar heimsóknir unglinga á safnið í kjölfar heimsókna nemenda í 9. bekk. „Unglingar fá svo oft þau skilaboð að þau séu ekki velkomin á hina og þessa staði, en á bókasafninu eru þau alltaf velkomin svo lengi sem þau ganga vel um. Þau hafa kannski notið þess að heimsækja barnadeildina sem börn en vita ekki endilega af því að á 3. hæð er deild sem er sérstaklega fyrir unglinga, full af unglingabókum, furðusögum, myndasögum og spilum þar sem gott er að koma og lesa, læra, spila eða bara til að eiga notalega stund með vinum. Heimsókn 9. bekkinga er því mikilvægur liður í að koma bókasafninu á kortið í hversdegi unglinga, hvetja þau til lesturs og að nýta aðstöðuna sem bókasafnið býður upp á,“ segir Kristín.

Á hverju ári er einnig haldin ljóðasamkeppni fyrir mið- og unglingastig grunnskólanna í tengslum við Ljóðstaf Jóns úr vör. Gríðarlegur fjöldi ljóða berast á hverju ári og er ljóst að börn í Kópavogi eru upprennandi höfundar.

Starfsfólk Bókasafns Kópavogs er stolt af frábærum árangri barna og ungmenna í Kópavogi og hlakkar til að halda áfram að bjóða þau velkomin hvetja þau til lesturs.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

02
nóv
25
apr
Salurinn
27
nóv
Salurinn
27
nóv
Bókasafn Kópavogs
27
nóv
Bókasafn Kópavogs
27
nóv
Bókasafn Kópavogs
20:00

Bókaspjall

27
nóv
Gerðarsafn
28
nóv
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

29
nóv
Bókasafn Kópavogs
30
nóv
Salurinn
30
nóv
Menning í Kópavogi
01
des
Bókasafn Kópavogs

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR