Feðgarnir Höskuldur Gunnlaugsson og Gunnlaugur Sigurðsson eru menn hefðarinnar. Höskuldur er flestum þekktur sem fyrirliði meistaraflokks Breiðabliks í knattspyrnu en það sem kannski ekki allir vita þá er hann sérfræðingur í laufabrauðsgerð. Fjölskyldan hefur haldið hefðinni við og nú ætla þeir feðgar að deila með gestum kunnáttu sinni. Höskuldur mun kynna tæknina og aðstoða fólk við að skera og Gunnlaugur ætlar að standa vaktina í eldhúsinu og steikja. Því bjóða þeir gestum og gangandi að eiga með sér hátíðlega stund í safnaðarheilmili Kópavogskirkju þann 13. desember.

„Eins og hjá mörgum íslenskum fjölskyldum hefur það lengi verið órjúfanleg hefð hjá minni fjölskyldu að koma saman á aðventunni og skera út heimagert laufabrauð, segir Höskuldur. Uppskriftin sem við notum hefur fylgt okkur í gegnum kynslóðir og kemur frá ömmu minni heitinni, Arnþrúði Gunnlaugsdóttur frá Eiði á Langanesi. Því miður hefur þessi dýrmæta og séríslenska hefð verið á undanhaldi. Margir hafa þurft að láta sér nægja ófullmótað laufabrauð keypt tilbúið út í búð, en hver sá sem þekkir fullmótað heimagert laufabrauð veit að ekkert jafnast á við það sem gert er á heimilunum. Þar er hreinlega ásýndin öll og ekki síður bragðgæðin ólíkt því sem fæst tilbúið út í búð. Það dýrmætasta við laufabrauðshefðina er þó samverustundin: þegar jafnvel þrjár kynslóðir koma saman í aðdraganda jólanna til að skera út sitt laufabrauð, hver með sín sérkenni í útskurðinum.“

„Laufabrauðshefðin hefur alltaf verið mér afar kær. Um tíma svaraði ég kallinu um að bjóða upp á sanngilt og fullmótað íslenskt laufabrauð á markaði og framleiddi Hátíðarlaufabrauð þrjú jól í röð. Viðtökurnar voru mér einkar hjartnæmar. Síðustu ár hafa önnur verkefni haldið mér frá framleiðslunni, en ástríðan fyrir laufabrauðinu hefur aldrei minnkað. Þess vegna er mér sérstaklega ánægjulegt að fá að taka þátt í laufabrauðssmiðjunni sem haldin verður í Safnaðarheimilinu í Kópavogi, laugardaginn 13. desember. Þar munum við koma saman og fara yfir helstu handtökin og skera út nokkrar – á gamla góða mátann. Ég hlakka mjög til að sjá ykkur, og ekki síður að sjá hæfileika ykkar í laufabrauðsútskurðinum,“ segir Höskuldur brosandi.
Við hetjum ykkur öll til þess að mæta, eiga hátíðlega stund með þessum flottu feðgum.
Smiðjan er gestum að kostanaðarlausu, bæði kökur og tól eru á staðnum. Við biðjum gesti um að koma með eigin box/hirslu undir laufabrauð sem þau skera.











