Bókasafn Kópavogs hefur á árinu tekið á móti 5,1 milljón krónum í styrkveitingar fyrir hin ýmsu verkefni sem fara fram innan veggja bókasafnsins og miða að því að auka þjónustu við lánþega og aðra gesti. Styrkveitingar eru einkar verðmætar fyrir bókasafnið, þar sem starfsemin er ekki hagnaðardrifin. Með því auka fjármagni sem fæst úr styrkjum er því hægt að víkka út það starf sem fram fer á bókasafninu.
400.000 kr. úr Íslenskusjóði Háskóla Íslands fyrir áframhaldi á Tala og spila
„Markmið Íslenskusjóðsins er að veita styrki til að efla vald á íslensku máli meðal barna og fullorðinna, einkum fjöltyngdra barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra.“
Verkefnið Tala og spila hefur verið rekið á Bókasafni Kópavogs í samstarfi við GETA hjálparsamtök þar sem fólk getur komið saman í afslöppuðu umhverfi og æft sig í íslensku með aðstoð íslenskukennara á sama tíma og það grípur í spil. Með styrknum víkkaði verkefnið örlítið út, en börn eru nú velkomin með foreldrum sínum. Viðburðaröðin hefur verið vel sótt og mikið gleðiefni að hægt sé að halda henni áfram.
500.000 kr. úr Barnamenningarsjóði fyrir þróun á sögustundum
„Hlutverk Barnamenningarsjóðs er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.“
Sögustundir á Bókasafni Kópavogs hafa tekið á sig ævintýralegan blæ sl. vetur þegar Eyrún Ósk, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar, og Gréta Björg, deildarstjóri barnastarfs hafa þróað svokallaðar skynjunarsögustundir, þar sem þær hafa bætt við hljóðum, leikmunum og gætt sögupersónur lífi með leikrænum tilburðum, hljóðfærum og brúðum. Sögustundirnar hafa gengið afar vel og börn sem hafa vanalega ekki eirð í sér til að sitja og hlusta verið sem dolfallin. Því er ánægjulegt að geta haldið áfram að þróa þessar sögustundir.
1.200.000 kr. úr Bókasafnasjóði fyrir viðburðaröðinni Bókasafnið gegn upplýsingaóreiðu
,,Bókasafnið er staður þar sem upplýsingar eru geymdar“ samkvæmt skilgreiningu Wikipedia. Safnið ætlar að setja af stað nýtt verkefni, sem miðar að því að vinna gegn upplýsingaóreiðu samtímans og hjálpa lánþegum/gestum að finna réttar, áreiðanlegar og sannar upplýsingar. Viðburðaröðinni var hrint úr vör með kökuboði þar sem gestir fengu kökur til að maula meðan lært var um vefkökur. Af öðrum viðburðum má nefna kennslu á ChatGPT, fræðslu um alghóryþmann og margt fleira.
3.000.000 kr. úr Bókasafnasjóði fyrir kynningarátaki almenningsbókasafna
Bókasafn Kópagos sótti um styrk fyrir samvinnuverkefni almenningsbókasafna á Íslandi til að framleiða og fara af stað með kynningarátak almenningsbókasafna. Markmiðið er að auka vitund fólks um bókasafnið sem fastan punkt í nærsamfélaginu, bæði til að auka lestraráhuga en einnig sem samkomustaður og menningarhús. Með kynningarátaki geta bókasöfnin skipað sér sess sem mikilvægur þáttur í daglegu lífi fólks í nærumhverfinu, þar sem öll eru velkomin burtséð frá kyni, þjóðerni, stétt eða stöðu.











