Sólveig Aðalsteinsdóttir (f. 1955) myndlistarmaður er handhafi Gerðarverðlaunanna árið 2025. Gerðarverðlaunin voru veitt í sjötta sinn 10. desember sl. við hátíðlega athöfn. Handhafar verðlaunanna undanfarin ár eru Rósa Gísladóttir, Þór Vigfússon, Finnbogi Pétursson, Ragna Róbertsdóttir og Helgi Hjaltalín Eyjólfsson. Tónlistarkonan K. Óla flutti ljúfa tóna í tilefni dagsins.
Sólveig nam við Myndlistar- og handíðaskólann, New York Feminist Art Institute, Whitney Museum of American Art, Indipendent Studio Program í New York og Jan van Eyck Akademie í Hollandi. Hún hefur haldið einkasýningar í Hafnarborg árið 2014, Listasafni Reykjavíkur 2012 og Listasafni ASÍ 2008. Sólveig umbreytir hversdagslegum hlutum í ljóðræna skúlptúra sem láta okkur endurhugsa hvernig við skynjum og skiljum umhverfi okkar. Verk hennar fjalla um tíma, umbreytingu og náttúrulega ferla þar sem hún skrásetur tif tímans í ólíka miðla með einstakri næmni. Sólveig hefur jafnframt kennt kynslóðum listamanna og hefur haft mótandi áhrif á íslenska samtímalist. Með veitingu Gerðarverðlaunanna hlýtur Sólveig verðskuldaða viðurkenningu fyrir ríkulegt framlag sitt til höggmyndalistar.
Gerðarverðlaunin eru veitt til stuðnings við höggmyndalist á Íslandi. Þau eru veitt til heiðurs Gerði Helgadóttur myndhöggvara og eru veitt framúrskarandi myndlistarmanni sem vinnur við skúlptúr- og rýmisverk. Verðlaunin spretta upp úr sérstöðu Gerðarsafns sem var stofnað til heiðurs listakonu sem braut blað í sögu höggmyndalistar hérlendis og átti stórfenglegan feril þrátt fyrir stutta ævi. Verðlaunin eru ekki aðeins veitt fyrir mögnuð verk, heldur einnig fyrir seiglu og stórhug innan listræns starfs og styðja við áframhaldandi listsköpun.
Gerðarverðlaunin eru veitt með stuðningi frá Menningar- og mannlífsnefnd Kópavogsbæjar og nema 1.000.000 kr. til stuðnings við listsköpun verðlaunahafans. Dómnefnd Gerðarverðlaunanna skipa myndlistarmennirnir Hildigunnur Birgisdóttir og Kristinn G. Harðarson ásamt Brynju Sveinsdóttur, forstöðumanni Gerðarsafns.



















