Vetrarhátíð í Kópavogi 2023

Glæsileg dagskrá verður á Vetrarhátíð í Kópavogi 3. – 4. febrúar en hátíðin samanstendur af Safnanótt, Sundlaugasíðdegi og ljósalist ásamt ótal viðburðum og sýningum þar sem fjöldi listafólks tekur þátt í að skapa rafmagnað andrúmsloft í Kópavogi.

Augun alsjáandi og altarishljóð

Hápunktur hátíðarinnar er án efa vörpun listaverksins Tillit sem verður sýnt á austurhlið Kópavogskirkju frá 18.00 – 23.00, bæði föstudags- og laugardagskvöld.  Verkið, sem er eftir listakonuna Þórönnu Björnsdóttur, er í samtali við dulspekilega myndlist Gerðar Helgadóttur og hið alsjáandi auga sem finna má í nokkrum verkum Gerðar, meðal annars í tillögum að altaristöflu fyrir Kópavogskirkju. Þóranna vinnur í myndbandsverki sínu úr nýjum upptökum af augum og augnatilliti tæplega hundrað Kópavogsbúa. Augun, kvik, spurul, leitandi, snörp og alsjáandi munu leika um útvegg kirkjunnar á Vetrarhátíð í draumkenndu og hugvíkkandi verki sem minnir á óravíddir hugans og hins innra lífs. Listamaðurinn Vikram Pradhan aðstoðaði við gerð verksins.

Inni í kirkjunni verður hljóðverk Þórönnu, Altarishljóð fyrir Kópavogskirkju, flutt á klukkutímafresti frá klukkan 18.30 til kl. 22.30. Verkið, sem er um 15 mínútur, er samið að beiðni Salarins í Kópavogi og var frumflutt í maí síðastliðnum.

Sjónarspil ÞYKJÓ

Augað leikur líka lykilhlutverk í nýrri innsetningu hönnunarhópsins ÞYKJÓ sem verður vígð á Safnanótt í Náttúrufræðistofu Kópavogs en innsetningin, sem ber heitið Sjónarspil,hverfist um sjónskynjun dýra og manna og hvernig við upplifum heiminn út frá ólíkum sjónarhornum, litum og víddum.  Hvernig sjá dýr öðruvísi en mannfólk? Hvaða liti greina þau? Skiptir máli hvar augun eru staðsett? Standa augun kannski á stilkum? Verkefnið var unnið í samstarfi við Vísindasmiðju Háskóla Íslands, líffræðinga af Náttúrufræðistofu og rýnihóp sem skipaður var börnum af leikskólanum Marbakka.

Silent diskó og salsatónlist til kl. 23

Á Safnanótt verður fjölbreytt dagskrá á Bókasafni Kópavogs og Náttúrufræðistofu þar sem meðal annars verður hægt að kynnast undrum vísindanna í Vísindasmiðju Háskóla Íslands, hlýða á upplestur og bókaspjall með Sigríði Hagalín og Jóni Kalman og taka vel valin dansspor í Silent diskó.  Splunkunýr ratleikur, blöðrudýrasmiðja með Blaðraranum og myndavélakassi ættu að tryggja að öll geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Í Gerðarsafni stendur yfir glæný sýning, Að rekja brot (Tracing Fragments) en ókeypis er á sýninguna í tilefni Safnanætur. Mezzósópransöngkonan Hildigunnur Einarsdóttir mun varpa ljósi á sýninguna í gegnum tónlist í söngleiðsögn á Safnanótt. Í Gerðarsafni verður einnig boðið upp á sívinsæla fjölskyldusmiðju í sólarprenti undir leiðsögn Hjördísar Höllu Eyþórsdóttur.  

Í Salnum stígur hljómsveitin Los Bomboneros á stokk kl. 20 en hana skipa Alexandra Kjeld, Daníel Helgason, Kristofer Rodriguez Svönuson og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir. Sveitin sækir í funheitan tónlistararf Mexíkó, Perú og Kólumbíu og eiga tónleikar Los Bomboneros það gjarnan til að breytast í geggjaðan dansleik. Sérstakir gestir verða ungir spilarar úr Skólahljómsveit Kópavogs. Opið verður í Salnum frá 18 – 23 á Safnanótt, léttar veitingar til sölu og skífuþeytarinn Kraftgalli reiðir fram suðræna salsatónlist.

Geisladiskavélmenni á Hljóðbókasafni

Á Safnanótt gefst gestum kostur á að heimsækja Hljóðbókasafn Íslands sem verður með rafmagnaða stemningu frá kl. 18 – 23. Geisladiskavélmenni og önnur tæki og tól fortíðar og framtíðar verða til sýnis og félagar úr Skólahljómsveit Kópavogs galdra fram geggjaða tóna kl. 18:45.  

Notalegt andrúmsloft mun einnig ríkja á Héraðsskjalasafni Kópavogs en þar verða tvær kvikmyndir eftir Martein Sigurgeirsson sýndar gestum og gangandi, kvikmynd um Bræðurna frá Kópavogsbúinu kl. 19 og kvikmynd um knattspyrnudeildir Breiðabiks kl. 21.  

Gallerí í Kópavogi

Gallerí Göng snýr aftur þar sem ungt vegglistafólk mun gæða gömlu skiptistöðvargöngunum við Digranesveg lífi frá 18 – 23. Y gallery verður einnig opið á Safnanótt kl. 18.00 – 22.00 en galleríið er til húsa í gömlu Olísstöðinni við Hamraborg. Þar mun myndlistarmaðurinn Örn Alexander Ámundason flytja gjörninginn Klemmdur kl. 19.30 en gjörningurinn sló í gegn á Gjörningaþoku í Listasafni Reykjavíkur í mars 2022 og á gjörningahátíðinni A! á Akureyri í september 2022.

Dans, tónlist og sund á laugardegi

Á laugardaginn kl. 13 verður í Gerðarsafni flutt verk í vinnslu; Harmhljóð horfinna hluta (Elegía delle cose perdute) sem er fjölþjóðlegt sviðslistaverk með lifandi tónlist en þátttakendur koma meðal annars úr hópi flóttafólks og fólks í leit að alþjóðlegri vernd.

Klukkan 14 verður hægt að hlusta á heillandi gítartónlist í flutningi Svans Vilbergssonar í Borgum, safnaðarheimili Kópavogskirkju en þar munu meðal annars verða frumflutt tvö splunkuný verk eftir Hafdísi Bjarnadóttur og Gunnar Andreas Kristinsson sem bæði voru samin sérstaklega fyrir Svan.

Laugardaginn 4. febrúar verður sundlaugamenningin á sínum stað en í Kópavogi verður sundlaugasíðdegi í Salalaug þar sem boðið verður upp á sundballett og Einar Anton töframaður skemmtir sundlaugagestum með töfrum sínum.

Frítt verður því í laugina kl. 15.00 – 18.00.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

15
jan
Bókasafn Kópavogs
15
jan
Bókasafn Kópavogs
16:30

Myndgreining

16
jan
Bókasafn Kópavogs
17
jan
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

18
jan
Bókasafn Kópavogs
18
jan
Náttúrufræðistofa Kópavogs
18
jan
Gerðarsafn
14:00

Leiðsögn

20
jan
Bókasafn Kópavogs
slökunarjóga
21
jan
Bókasafn Kópavogs
21
jan
Salurinn
Jón úr Vör
21
jan
25
jan
Bókasafn Kópavogs

Sjá meira