Þórir Baldursson heiðurslistamaður

Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar hafa útnefnt heiðurslistamann bæjarins á tveggja til fjögurra ára fresti frá árinu 1988. Árið 2021 var Þórir Baldursson tónlistarmaður útnefndur heiðurslistamaður Kópavogsbæjar fyrir framlag sitt til lista- og menningarmála.

Þórir Baldursson tónlistarmaður hefur verið útnefndur heiðurslistamaður Kópavogsbæjar fyrir framlag sitt til lista- og menningarmála. Karen Elísabet Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar, tilkynnti um valið við hátíðlega athöfn í Gerðarsafni fimmtudaginn 9. desember.
 
Þórir Baldursson á að baki stórmerkilegan feril sem lagahöfundur, Hammond-orgelleikari og útsetjari, hérlendis og erlendis og hefur sungið sig inn í hjörtu þjóðarinnar með aragrúa vinsælla sönglaga og útsetninga. 
 
Þórir er fæddur árið 1944 í Keflavík og hóf tónlistarferil sinn ungur að árum. Hann útskrifaðist af kennarabraut Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1965, 21 árs, og var þá þegar orðinn einn af þekktari tónlistarmönnum landsins, meðal annars sem stofnmeðlimur hins ástsæla Savanna-tríós. Á áttunda og níunda áratugnum bjó Þórir í München og í Bandaríkjunum og starfaði sem útsetjari og upptökustjóri fyrir heimsþekkt tónlistarfólk á borð við Donnu Summer, Elton John, Grace Jones og Giorgio Moroder.

Þórir hefur verið búsettur á Íslandi frá 1990 og látið taka til sín á tónlistarsviðinu, hvort tveggja sem kennari og tónlistarmaður. Hann hefur komið fram á ógrynni tónleika, tónlistarhátíðum og plötum en á meðal samstarfsfólks má nefna Sigurð Flosason, Andreu Gylfadóttur, KK, Jóel Pálsson, Einar Scheving, Björn Thoroddsen, hljómsveitirnar Gamma og Sálgæsluna.

Þórir Baldursson hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2011.
 
Við athöfnina í Gerðarsafni flutti jazztríó, skipað Unu Stef söngkonu, Agnari Má Magnússyni á Hammond-orgel og Scott McLemore trommuleikara tvö af ástsælustu sönglögum Þóris, lögin Leyndarmál og Kling Klang.

Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar hefur útnefnt heiðurslistamann bæjarins á tveggja til fjögurra ára fresti frá árinu 1988 en á meðal heiðurslistamanna sem áður hafa verið útnefndir fyrir framlag sitt til lista- og menningarmála má nefna Kristínu Þorkelsdóttur hönnuð, Þórunni Björnsdóttur kórstjóra, Ragnar Axelsson ljósmyndara og Jónas Ingimundarson píanóleikara.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

30
des
Salurinn
03
jan
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

04
jan
Bókasafn Kópavogs
06
jan
Bókasafn Kópavogs
07
jan
Bókasafn Kópavogs
07
jan
Bókasafn Kópavogs
08
jan
Bókasafn Kópavogs
08
jan
Bókasafn Kópavogs
08
jan
Náttúrufræðistofa Kópavogs
16:15

Tunglið

09
jan
Salurinn
09
jan
Bókasafn Kópavogs
10
jan
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

Sjá meira