Ljúfir hádegistónleikar með framhaldsnemendum af söngdeild Tónlistarskóla FÍH, síðasta fimmtudag hvers mánaðar. Lög sem öll þekkja í bland við sjaldheyrðari smelli, sveifla og sving, stuð og stemning.
Á þessum tónleikum flytja þær Berglind Ragnarsdóttir og Vigdís Þóra Másdóttir nokkur uppáhalds djass- og dægurlög sem fléttast í kringum vetur og myrkur. Með þeim leikur Vignir Þór Stefánsson á píanó
Tónleikarnir standa yfir í um hálfa klukkustund og eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.
——————-
Berglind Ragnarsdóttir hóf ung klassískt píanónám í Suzukiskólanum og hélt svo áfram í Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem hún lauk 6. stigi.
Hún hefur verið virkur þátttakandi í kórastarfi bæði á Íslandi og í Svíþjóð þar sem hún stundaði meistaranám í nýsköpunarverkfræði í Gautaborg. Auk þess hefur hún stýrt barnakór, stundað klassískt söngnám í bæði Tónlistarskólanum í Reykjavík og Söngskólanum í Reykjavík og sótt námskeið í Complete Vocal Technique, lagasmíðum og viðburðahaldi hjá Söngsteypunni.
Undanfarin ár hefur Berglind einbeitt sér að lagasmíðum og er byrjuð að gefa út efni undir eigin nafni. Haustið 2020 hóf hún rytmískt söngnám við Tónlistarskóla FÍH og mun ljúka framhaldsprófi í vetur.
———————–
Vigdís Þóra er söngkona og lagahöfundur. Hún spilaði á þverflautu sem barn en hóf svo klassískt söngnám við Söngskóla Reykjavíkur og síðar Söngskóla Sigurðar Demetz. Eftir að hafa klárað 6. stig sagði hún skilið við sönginn og hóf nám við Háskóla Íslands í mannfræði og listfræði.
Söngurinn togaði þó áfram og haustið 2020 hóf hún nám í rytmískum djasssöng við Tónlistarskóla FíH þar sem hún fann djúpstæða tengingu við djass, blús og sálartónlist ásamt því að fara að semja sjálf sína eigin tónlist. Hún bætti einnig við sig mastersnámi í kennslufræðum við Listaháskóla Íslands með áherslu á tónlistarkennslu þaðan sem hún útskrifaðist vorið 2023.
Vigdís Þóra starfar í dag sem tónmenntakennari og tónlistarkona. Hún hefur verið meðlimur Hamrahlíðarkórsins frá 2011 og tekið þátt í fjölda verkefna með kórnum hérlendis og erlendis, meðal annars með Björk í Cornucopiu tónleikaröðinni í New York og í Evrópu. Hún hefur reglulega komið fram á tónleikum bæði innan og utan veggja FíH og stefnir á framhaldspróf í rytmískum söng vorið 2024. Enn fremur stefnir Vigdís Þóra á útgáfu á sinni eigin tónlist ásamt því að koma sér á framfæri sem bæði söngkona og lagahöfundur.