Hin lífsseiga spjalltónleikaröð Jóns Ólafssonar, Af fingrum fram, fagnar nú stórafmæli og dagskrá vetrarins er í senn spennandi, fjölbreytt og áhugaverð!
Af fingrum fram birtist landsmönnum fyrst í formi sjónvarpsþáttar sem hlaut Edduverðlaunin á fyrsta vetri en fyrir 15 árum ákvað gestgjafinn að prófa að færa þessa hugmynd inn á svið Salarins í Kópavogi við mikinn fögnuð Íslendinga sem hafa flykkst á tónleikaröðina allar götur síðan.
Tryggðu þér miða með forsöluafslætti fyrir
10. ágúst 2024
Forsöluverð kr. 6.500
Miðaverð kr. 7.500
Tvíhöfði – 12. september 2024
Þeir félagar Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson heimsóttu Jón Ólafsson síðastliðinn vetur og komust færri að en vildu. Fyrir vikið er slegið í klárinn að nýju og eftir viðburðaríkt ár þeirra félaga á sviði kvikmyndagerðar, forsetaframboðs, þáttagerðar og skemmtana mæta þeir nú aftur til leiks. Tónlistin verður í forgrunni enda hafa þeir félagar samið og flutt ógrynni stórskemmtilegra laga í þáttum sínum; hvort heldur sem Fóstbræður eða Tvíhöfði.
Friðrik Dór – 3. október 2024
Friðrik Dór er einn vinsælasti tónlistarmaður Íslendinga nú um mundir og er það vel því FH-ingurinn er ekki bara frábær söngvari og lagahöfundur heldur er hann líka stórskemmtilegur og tekur sjálfan sig mátulega hátíðlega. Friðrik hefur áður heimsótt Jón Ólafsson í Salinn en þá í slagtogi með stóra bróður. Nú fær hann sviðið einn og óstuddur og það er spá gárunganna að hann muni spjara sig með bravúr! Þeir Bergur Einar og Andri Ólafsson verða Jóni og Friðriki til aðstoðar á slagverk og bassa.
KK – 14. nóvember 2024
Kristján Kristjánsson, KK, sló í gegn þegar lag hans Vegbúinn fór að óma á öldum ljósvakans og síðan hefur hann ekki litið til baka og send frá sér blússkotin lög í bland við ballöður og sálarþrungna söngva sem þjóðin hefur tekið fagnandi. Svo þegar KK hóf útvarpsmannsferil sinn í þættinum á Á reki náði á Rás 1 náði hann auðvitað til enn fleiri og hefur þar af mikilli alúð kynnt fjölbreytta tónlist fyrir landsbúum. Vegbúinn, Bein leið, I Think Of Angels og Kærleikur og tími eru bara dæmi um lög sem verða flutt á spjalltónleikunum. Þorleifur Guðjónsson slæst í hópinn á sviðinu með bassann sinn.
Sigga Beinteins – 21. nóvember 2024
Sigga Beinteins er ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar og hefur verið að í áratugi. Hljómsveit þeirra Grétars Örvarssonar, Stjórnin, fór aftur á stjá fyrir nokkrum árum og vinsældir sveitarinnar eru síst minni en þegar þau voru á sínum hátindi í kringum Eurovision hér um árið. Á tímabili starfaði Sigga við dúklagningar en góðu heilli hefur hún ekki þurft að veggfóðra eða dúkleggja um árabil því það hefur sko verið yfirdrifið nóg að gera í tónlistinni með tilheyrandi tónleikahaldi og plötuútgáfu. Eitt lag enn, Við eigum samleið, Ég lifi í voninni og fleiri góðir smellir verða á dagskránni ef að líkum lætur. Með þeim Jóni verður Róbert Þórhallsson á bassa.
GDRN – 6. febrúar 2025
Hún heitir Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir og söng sig inn í hjörtu landans fyrir nokkrum árum. Æfði fótbolta með Aftureldingu og þótti víst bara fjári góð en meiðsli settu strik í reikninginn. Ólíklegt þykir að knattspyrnuferilinn verði uppistaða spjalls hennar við Jón Ólafsson í þetta sinnið heldur verður músíkin auðvitað í algjörum forgrunni. Rödd Guðrúnar er alveg einstök; djúp, hlý og hljómmikil og það verður gaman að heyra hana óma um Salinn sem er einn besti tónleikasalur landsins og þótt víðar væri leitað. Þeim Jóni til aðstoðar verða Andri Ólafsson og Bergur Einar á bassa og slagverk.
Magni Ásgeirsson– 20. febrúar 2025
Borgarfjörður Eystri, Bræðslan, Á móti sól og Rock Star eru kannski helstu fyrirbærin sem koma upp í hugann þegar nafn Magna Ásgeirssonar, tónlistarmanns, ber á góma. Austfirðingurinn knái rekur í dag tónlistarskóla á Akureyri þegar hann er ekki að skemmta Íslendingum ýmist með hljómsveitinni sinni eða í alls kyns verkefnum. Magni er fádæma duglegur og afkastamikill og virðist sjaldan sitja auðum höndum enda eftirsóttur mjög. Lög af sólóplötum, lög með Á móti sól, tónlist Queen og jafnvel eitthvað af meiði söngleikja er líklegt til að rata inn á dagskrá tónleikanna. Þeim til aðstoðar verður Árni Þór Guðjónsson.
Sigurður Flosason – 13. mars 2025
Sérstakir gestir: Andrea Gylfa og Kristjana Stefáns
Sigurður Flosason hefur komið víða við á löngum og gifturíkum ferli. Hann er gríðarlega eftirsóttur á tónleika, í hljóðver og í leikhús sökum fjölhæfni og einstakra hæfileika auðvitað. Hann hefur vald á flestum stílum tónlistar auk þess að spila á ógrynni blásturshljóðfæra. Sigurður hefur alla tíð verið ötull við plötuútgáfu og sýnt á sér margbreytilegar hliðar, bæði sem höfundur og flytjandi, hvort sem viðfangsefnið eru sálmar, djass, popp eða fönk. Þegar Sálgæslan birtist svo landanum kom í ljós að hann er ansi skemmtilegur textahöfundur líka með svartan húmor. Söngkonurnar Andrea Gylfadóttir og Kristjana Stefánsdóttir verða þeim félögum til halds og trausts rétt eins og bassaleikarinn Birgir Steinn Theódórsson.
Salka Sól – 27. mars 2025
Salka Sól Eyfeld hefur staðið í íslensku sviðsljósi um nokkra hríð og vakið athygli fyrir fjölhæfni sína. Hljómsveitin Amabadama kemur auðvitað upp í hugann þegar nafn hennar ber á góma þar sem hún söng eftirminnilega en þess utan hefur hún samið og flutt tónlist í leikhúsi og verið vinsæl útvarpskona og skemmtikraftur. Salka spilar á ólíklegustu hljóðfæri og það er ekki ólíklegt að við fáum að sjá hana sýna færni sína í þeirri deild. Uppáhaldslög listakonunnar í bland við frumsamið efni verður á dagskránni og það er 107% öruggt að þetta verður gott kvöld. Guðmundur Óskar Guðmundsson mun sjá um bassaleik.
Stefán Hilmarsson – 10. apríl 2025
Stefán Hilmarsson þarf vart að kynna en það er ljótt að skilja útundan. Hann hóf söngvaraferil sinn í Kvennaskólanum og söng svo með Sniglabandinu inn á plötu og þaðan í frá tók frægðarsól þessa frábæra söngvara að rísa svo um munaði. Hann er einn stofnandi Sálarinnar sálugu, einnar vinsælustu hljómsveit allra tíma hér á landi. Stefán hefur sent frá sér helling af músík á löngum ferli; bæði sem einherji og gestur á hljómplötum annarra listamanna. Honum var hent út í djúpu laugina í textagerð á upphafsmetrum Sálarinnar og var fljótur að ná tökum á þeirri list að setja saman eftirminnilega söngtexta. Það verður farið í gegnum litríkan og fjölbreyttan feril Stefáns á þessum tónleikum og ljóst er að af nægu er að taka. Þeim Jóni til aðstoðar verður Friðrik Sturluson, bassaleikarinn viðkunnalegi.