Foreldrar ungmenna hafa fengið að njóta þess að sækja fjölbreytt fræðsluerindi á Bókasafni Kópavogs í haust. Fyrirlestraröðin fékk titilinn Haltu mér – slepptu mér með tilvísun í titil bókar Eðvarðs Ingólfssonar sem var vinsæl um það leiti sem margir foreldrar ungmenna voru unglingar sjálf. Fyrirlestraröðin tekur fyrir ýmis málefni sem tengjast þroska og uppeldi ungmenna á aldrinum 12-18 ára og fær bókasafnið til liðs við sig ýmsa sérfræðinga til þess að fræða foreldra um þær áskoranir sem ungmenni standa frammi fyrir í dag.
Þeir fyrirlesarar og efni sem þegar hafa verið á dagskrá
Skúli Bragi Geirdal hélt erindi um miðlalæsi og samfélagsmiðlanotkun ungmenna. Hann fjallaði meðal annars um átak sem farið var í og skilaði sér í minni samfélagsmiðlanotkun ungmenna undir 13 ára aldri , en fyrir þann tíma mega þau lögum samkvæmt ekki vera á þeim miðlum.
Þorsteinn V. Einarsson fjallaði um karlmennskuhugmyndir og kynjahlutverk. Hann fræddi foreldra um rannsóknir sem gerðar hafa verið um hlutverk kynja og áhrif skaðlegra kynjaímynda á fullorðinsárum. Hann mælti með því að uppfræða unga stráka um forréttindi sín og hjálpa þeim að nota þau til góðs, en lagði mikla áherslu á að enginn á að skammast sín fyrir forréttindi heldur benti einungis á að við erum ekki öll með sömu tækifæri í lífinu.
Berglind Brynjólfsdóttir ræddi um einkenni kvíða, hvað er hægt að gera til að aðstoða ungmenni með kvíða og ráð við honum. Hennar fyrsta ráð til foreldra sem grunar að barnið sitt þjáist af kvíða var að sýna áhugamálum barnsins áhuga og búa til tíma til samvista, en þannig getur skapast umræðugrundvöllur þar sem barnið opnar sig við foreldra. Það er alltaf klassískt að kíkja í ísbíltúr og njóta samveru.
Jón Geir Jóhannsson fjallaði um lestrarvenjur ungmenna eins og þær birtast bóksölum í Nexus. Ungmenni lesa mikið á ensku þar sem lítið er þýtt af því efni sem ungmenni vilja lesa. Tiktok hefur breytt lestrarvenjum og erfiðara að sjá fyrir hvað verður vinsælt, því ýmsar bækur springa út eftir umfjöllun á Tiktok, stundum mörgum árum eftir útgáfu. Ungmenni vita sjálf hvað þau vilja lesa og mælti Jón Geir, líkt og Berglind, með því að eiga samræður við ungmennin og sýna því áhuga sem þau lesa.
Áframhaldandi dagskrá á vormánuðum
Erindaröðin hefur hlotið frábærar viðtökur og því gleðilegt að segja frá því að boðið verður upp á fimm fræðsluerindi í viðbót á vorönn og er dagskráin eftirfarandi:
7. janúar 2025, kl. 20:00
Fræðsla um svefn og svefnráð fyrir ungmenni
Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og svefnráðgjafi, fjallar um mikilvægi svefns fyrir heilsu, líðan, árangur og frammistöðu ungmenna.
4. febrúar 2025, kl. 20:00
PISA, lesskilningur og lestur ungmenna
Sigríður Ólafsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, rýnir í niðurstöður PISA-könnunarinnar í lesskilningi árið 2022. Hún mun fjalla um hæfniþrep PISA og tengja þau við samfélagslega umræðu hér á landi. Þá mun hún fjalla um mál- og læsiseflandi samskipti á heimili og í skóla sem leggja grunn að djúpum lesskilningi, eins og metinn er í lesskilningshluta PISA.
4. mars 2025, kl. 20:00
Hinseginleikinn og ungmenni
Edda Sigurðardóttir, fræðslustýra Samtakanna ʻ78, ræðir við foreldra um hvað er að vera hinsegin og útskýrir helstu hugtök og orðnotkun. Einnig verður fjallað um stöðu og áskoranir ungs fólks þegar kemur að hinseginleika, hvernig foreldrar geti verið styðjandi og hvaða úrræði standa til boða.
1. apríl 2025, kl. 20:00
Tölvuleikir og tölvuleikjanotkun ungmenna
Kristján Ómar Björnsson og Patrekur Gunnlaugsson, kennarar í grunnskólanum NÚ í Hafnarfirði, ræða um tölvuleiki og tölvuleikjanotkun ungmenna, hvaða leikir eru vinsælir, hvað foreldrar geta gert til að styðja börn sín og sýna áhugamáli þeirra áhuga ásamt því að stuðla að líkamlegu- og andlegu heilbrigði og félagslegum tengslum.
29. apríl 2025, kl. 20:00
Ofbeldi og vopnaburður ungs fólks
Margrét Valdimarsdóttir, dósent í afbrotafræði við Háskóla Íslands, rýnir í gögn sem varpa ljósi á þróun ofbeldis meðal ungs fólks og hverjir helstu áhættuþættirnir eru. Áhersla verður lögð á að skoða hvað virkar í forvörnum, hvaða aðferðir reynast árangurslausar og hafa jafnvel öfug áhrif. Auk þess verður fjallað um hvaða inngrip hafa reynst árangursríkust til að draga úr áhættuhegðun og koma í veg fyrir frekari brot.