Laugardaginn 22. september kl. 13:00-15:00 á sér stað Fjölskyldustund sem listamaðurinn Styrmir Örn Guðmundson leiðir. Styrmir vinnur með gjörningalist, break dans, rapp/söng, teikningar, skáldverk, skúlptúr og leikstjórn. Á námskeiðinu sýnir hann þátttakendum hvernig þessi mismunandi listform geta fléttast saman inn í frásagnir sem verða að gjörningum.
Á sýningunni SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR er Styrmir með verkið Líffæraflutningur sem samanstendur af fjórum skúlptúrum í formi mismunandi líffæra úr keramiki sem jafnframt eru hljóðfæri.
Styrmir (f. 1984) býr og starfar bæði í Varsjá, Póllandi og Reykjavík. Hann lauk listnámi í Amsterdam við Sandberg Institute (MA) árið 2012 og Gerrit Rietveld Academy (BFA) árið 2009. Í kjölfarið hefur Styrmir unnið að fjölbreyttum verkefnum, sýnt verk sín og flutt gjörninga á alþjóðlegum vettvangi, bæði á hátíðum, í söfnum og sýningarrýmum og innan leikhússins. Nýlega flutti hann gjörninginn What Am I doing With My Life í skála Litháens á Feneyjartvíæringnum 2017, sem hefur verið sýndur víða bæði á Íslandi og í Evrópu.
Á sýningunni SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR er fjórum samtímalistamönnum boðið að ganga inn í yfirlitssýningu á verkum Gerðar Helgadóttur. Með því er gerð tilraun til að draga fram skúlptúrinn í samtímanum.
Fjölskyldustundir á laugardögum eru í boði Menningarhúsanna í Kópavogi sem eru Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa, Salurinn og Héraðsskjalasafn. Viðburðurinn er opinn öllum og er þátttaka gestum að kostnaðarlausu.
Mynd: Kiki Petratou
I’ll Fly With You (performance), Waalse Kerk Rotterdam, 2015