Næstkomandi miðvikudagkvöld verður listhópurinn Endur hugsa með dagskrá þar sem leiðarstefið verður galdrar – í hversdagslífinu, í söguhefð, í sagnahefð – og önnur óútskýranleg, dularfull og undraverð fyrirbæri eins og nánd við náttúru, aðrar lífverur og hluti.
Boðið verður upp á hollan vegan mat kl. 20:00 á neðri hæð Gerðarsafns sem áður hýsti kaffihúsið Garðskálann.
Listahópurinn Endurhugsa mynda Vigdís Bergsdóttir, Jóhanna Ásgeirsdóttir og Ágústa Gunnarsdóttir. Hópurinn fjallar um umhverfismál í gegnum list og leitast við að skapa aðstæður til þess að staldra við og velta fyrir sér óræðum og mögulega ósvaranlegum spurningum, í þeim tilgangi að dýpka skilning á samhengi og sambandi mannsins við umhverfi sitt. Í sumar starfa þær fyrir Menningarhúsin í Kópavogi og hafa sett saman þétta viðburðardagskrá; röð fyrirlestra og listauppákoma annan hvern miðvikudag ásamt Fjölskyldustundum og fræðslu annan hvern laugardag. Miðstöð Endurhugsa er annars vegar í Geislahvelfingunni, gróðurhúsi úr geisladiskum á útisvæði Menningarhúsanna og hinsvegar í Gerðarsafni þar sem þær hafa haldið kvöldviðburði sína.
Dagskráin hefst á sjósundi og svo verður hjólað á Gerðarsafn, þar sem boðið verður upp á hollan vegan mat í upphaf viðburðarins.
Dagskrá:
17:30-20:00
Hisst hjá hljómskálanum, hjólað í sjósund og í Gerðarsafn, Kópavogi
20:00-22:00
Á Gerðarsafni
Birnir Jón Sigurðsson les smásögur
Hávísindalegur rauðkáls galdur eftir Endur Hugsa
Sigrún Gyða fremur gjörning
Á heimasíðu er hægt að nálgast upplýsingar um frekari viðburði:
https://www.endurhugsa.com/home
Viðburðurinn er liður í dagskrá Menningarhúsanna í Kópavogi, sem eru Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa Héraðsskjalasafn og Salurinn.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.