Fjölskyldustund með myndlistarmanninum Doddu Maggý með áherslu á spírala og mynstur í tengslum við sýninguna Ó, hve hljótt þar sem hún sýnir verk sitt Curlicue (spectra). Tilraunir verða gerðar með samsetningu pappírs, lita og mynstra og hentar smiðjan breiðum aldurshóp. Listakonan nýtir skjávarpa og vídeóvél og varpar vídeói af spírölum sem hafðir eru til fyrirmyndar.
Dodda Maggý (f. 1981) býr og starfar í Reykjavík. Hún vinnur myndlistarverk þar sem hún nýtir bæði aðferðarfræði myndlistar og tónlistar. Verk hennar hafa verið sýnd víða í söfnum, galleríum og á listamessum, bæði á Íslandi og erlendis, svo sem í Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Íslands, AROS safninu í Árósum, Scandinavia House í New York, Yale háskóla í Bandaríkjunum og Contemporary Art Society í Lundúnum. Verk hennar eru einnig hluti af safneignum jafnt einkasafna sem opinberra safna. Dodda er útskrifuð með tvær BA gráður frá Listaháskóla Íslands, úr myndlist annars vegar og tónsmíðum hins vegar. Þá er hún með MFA gráðu frá Konunglega danska listaháskólanum.
Fjölskyldustundir á laugardögum eru í boði Menningarhúsanna í Kópavogi sem eru Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa, Salurinn og Héraðsskjalasafn.
Smiðjan er opin öllum og er þátttaka gestum að kostnaðarlausu.