Vegna mikillar eftirspurnar verður þessi skemmtilega listsmiðja endurtekin. Hjördís Halla Eyþórsdóttir ljósmyndari kennir börnum á sólarprent.
Sólarprent (eða bláþrykk) er elsta og einfaldasta ljósmyndaaðferðin þar sem sólarljósið (eða útfjólublátt ljós) framkallar myndina.
Ljósnæmur vökvi er málaður á myndflöt svo sem pappír eða bómull sem svo er þurrkaður. Þurrkaðar jurtir, úrklippur, pappír og fleira eru síðan lagðir ofan á myndflötinn og móta myndverkið. Þá er myndverkið lýst með UV ljósi. Ljósmyndin er svo framkölluð með köldu vatni og sett í þurrk.
Smiðjan er haldin í tengslum við sýningar Santiagos Mostyn, Elínar Hansdóttur og Úlfs Hanssonar í Gerðarsafni en sýningarnar eru hluti af Ljósmyndahátíð Íslands.
Öll eru velkomin. Smiðjan hentar öllum börnum á grunnskólaaldri og fjölskyldum þeirra.