10.jan ~ 22.feb

Andvari | Valgerður Hafstað

Gerðarsafn

10.01.2015 – 22.02.2015
Valgerður Hafstað (1930-2011) nam myndlist í Reykjavík, Kaupmannahöfn og París, en þar lærði hún einnig mósaíkgerð ásamt málaralistinni. Í París bjó hún til ársins 1974 með eiginmanni sínum, André Énard myndlistarmanni, en þá settust þau að í New York þar sem þau stunduðu kennslu samhliða listmálun.
Verkin á sýningunni spanna allan listamannsferil Valgerðar. Þau elstu eru geómetrískar abstraktmyndir frá 1953-55. Í byrjun sjöunda áratugarins leysast formin upp, en verk Valgerðar eru á mörkum þess hlutbundna og óhlutbundna. Oft á tíðum má greina óljóst landslagsmótíf eða húsaþyrpingar sem hún virðist hafa umbreytt á einn eða annan hátt.
Valgerður hélt bæði einkasýningar og tók þátt í samsýningum hér á landi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Fyrsta myndlistarsýning Valgerðar var samsýning hennar og Gerðar Helgadóttur árið 1957 í Galerie La Rouge í París. Ári síðar hélt hún sína fyrstu einkasýningu í Listsalnum Ingólfsstræti. Einnig hélt hún einkasýningu í Gerðarsafni árið 2002 undir yfirskriftinni Yfirgrip.
Ferðalag
Ferðalag
Ferðalag
Í listfræðilegri umfjöllun um óhlutbundið málverk gleymist oft að tilurð þess var ekki endilega sprottin af listsögulegum toga. Að baki fyrstu hugmyndum um abstraksjónina lágu í raun heilmiklar andlegar pælingar. Forvígismenn abstraktlistar voru upp til hópa að grúska í dulvísindum og esóterisma sem beindi þeim að upplausn hlutlægra mynda. Vasilij Kandinskij var til að mynda virkur meðlimur í guðspekifélaginu (Theosophy), Constantin Brancusi drakk í sig búddíska dulspeki Jetsuns Milarepa, Piet Mondrian sótti í mannspeki (Anthroposophy) Rudolfs Steiner og Kasimír Maljevistj byggði margt í stúprematískum kenningum sínum á riti Peters Ouspensky Fjórða víddin.  Sumir þessara forvígismanna höfðu jafnvel lítinn sem engan áhuga á list listarinnar vegna. Teikningar andans (Spirit drawings) sem breska listakonan Georgiana Houghton sýndi fyrst árið 1871, löngu áður en listheimurinn viðurkenndi óhlutbundið myndefni, gerði hún til að koma sér í trans. Ferlið í teikningunni sem Houghton þróaði með sér hafði þau áhrif að hún tengdi sig æðri eða dýpri vitund. Sú tenging var ástæðan fyrir því að teikna eða mála mynd. Svipaða sögu má segja um sænsku listakonuna Hilmu af Klint. Hún málaði til að tengja sig æðri eða dýpri vitund. Hún hafði takmarkaðan áhuga á list fyrir listarinnar sakir og sýndi verk sín ekki opinberlega.
Fjórða víddin
Teikningar andans
Spirit drawings

Þessi tengsl abstraktlistar og esóterisma eru ekki síður hluti af sögunni að baki málverkum Völu Hafstað en sú línulaga mynd sem listfræðileg umfjöllun er gjörn á að gefa. Vala tengdist snemma hreyfingum abstraktlistarinnar og bera verk hennar vissulega merki um áhrif frá konkretlist og franska „informel“-skólanum sem eru tilkomin á listnámsárum hennar í París. Vala nam hins vegar líka fræði armenska dulspekingsins G.I. Gurdjieffs og lifði og hrærðist í esóterisma. Óhlutbundin málverk hennar eru frá þeim bæjardyrum séð ekki gerð fyrir listarinnar sakir heldur eru þau hluti af sjálfskönnun og tilraun til að horfa til dýpri tilvistarlegrar merkingar en hinn hlutbundni veruleiki gefur til kynna. Vala málaði út frá spurningunni og óvissunni fremur en þekkingunni og áætluninni. Athöfnin að mála varð þannig órætt ferðalag þar sem listakonan gat hugleitt og stöðugt komið sjálfri sér á óvart. Í hverri mynd leynist því dágóður tími en um leið gætir þar mikillar hófsemi líkt og tímanum hafi aldrei verið þröngvað upp á málverkið. Hann er þarna einfaldlega vegna þess að listakonunni lá ekkert á. Hún vissi vel að ferðalagið sjálft var áfangastaðurinn.
Jón B.K.Ransú

Deildu þessum viðburði

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

30
des
Salurinn
03
jan
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

04
jan
Bókasafn Kópavogs
06
jan
Bókasafn Kópavogs
07
jan
Bókasafn Kópavogs
07
jan
Bókasafn Kópavogs
08
jan
Bókasafn Kópavogs
08
jan
Bókasafn Kópavogs
08
jan
Náttúrufræðistofa Kópavogs
16:15

Tunglið

Sjá meira

Gerðarsafn

11
jan
Gerðarsafn
25
jan
19
apr
Gerðarsafn

Sjá meira