Saga Sigurðardóttir, dansari og danshöfundur, leiðir danssmiðju þar sem listakrákan Iða verður höfð til fyrirmyndar. Listakrákan Iða skoðar myndlist út frá hreyfingu í listaverkum en saman munu Saga og þátttakendur kanna þessar aðferðir Iðu. Þá mun Saga kenna leiðir til þess að tjá upplifun í gegnum líkamann og hvernig hreyfing, dans og dansspuni geta orðið til út frá myndum, litum, tilfinningum og hljóðum.
Saga Sigurðardóttir lauk danshöfundanámi frá ArtEZ Dansakademie í Hollandi og Meistaragráðu í sviðslistum frá Listaháskóla Íslands. Hún hefur um árabil starfað sjálfstætt sem dansari og -höfundur með ýmsum listamönnum bæði hérlendis og víðar um Evrópu.
Fjölskyldustundir á laugardögum eru í boði Menningarhúsanna í Kópavogi sem eru Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn, Náttúrufræðistofa, Salurinn og Héraðsskjalasafn.
Smiðjan er opin öllum og er þátttaka gestum að kostnaðarlausu.