Áróra Friðriksdóttir og Jóna Svandís Þorvaldsdóttir bjóða upp á hlýlega stund á Bókasafni Kópavogs. Fluttar verða nokkrar jólaperlur á íslensku í notalegu umhverfi bókasafnsins. Fullkomin leið til að taka stund frá önnum dagsins og njóta hátíðleika aðventunnar.
Tónleikarnir standa yfir í um hálfa klukkustund og eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.
Áróra Friðriksdóttir stundar söngnám á miðstigi við Tónlistarskóla FÍH. Hún hefur alltaf haft ánægju og yndi af tónlist og hóf að syngja í barna- og unglingakór Hafnarfjarðarkirkju aðeins fjögurra ára gömul. Auk þess stundaði hún bæði klassískt og rytmískt píanónám við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og lauk þaðan miðprófi í klassískum píanóleik. Áróra hóf nám í rytmískum söng árið 2022 og stefnir á að ljúka miðprófi í vor.
Jóna Svandís Þorvaldsdóttir stundar söngnám á miðstigi við Tónlistarskóla FÍH og hefur einnig grunn á píanó. Hún hefur notið þess að syngja frá blautu barnsbeini, lengst af með Vocal Project – poppkór Íslands en áður með kór Verzlunarskóla Íslands og Barnakór Árbæjarkirkju. Jóna stofnaði árið 2013 sönghópinn Jólabjöllurnar sem skemmta víða fyrir hver jól. Hún semur einnig eigin tónlist og gaf nýverið út plötuna ÓRAR ásamt vinkonum sínum.
Með Áróru og Jónu Svandísi kemur fram Valur Þór Hjálmarsson á gítar.