Annað árið í röð bjóða framhaldsnemendur af söngdeild Tónlistarskóla FÍH til ljúfra hádegistónleika á Bókasafni Kópavogs. Tónleikarnir fara fram síðasta fimmtudag hvers mánaðar en þar stíga tónlistarstjörnur framtíðarinnar á stokk með spennandi blöndu af gömlu og nýju, lög sem öll þekkja í bland við sjaldheyrðari smelli.
Tónleikarnir standa yfir í um hálfa klukkustund og eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.
Boðið verður upp á sumarlega tóna í tilefni af sumardeginum fyrsta.
Flytendur eru þær
Hildur Jónsdóttir, Guðrún Ásgeirsdóttir og Birgitta Sveinsdóttir
með þeim á píanó verður Vignir Þór Stefánsson
Hildur Jónsdóttir er söngkona og lagasmiður úr Kópavoginum. Hildur byrjaði ung á flautu og á fiðlu í Tónlistarskóla Kópavogs, var alla sína skólagöngu í Skólakór Kársness og fór svo í klassískt söngnám í Tónlistarskóla Kópavogs. Seinna færði hún sig yfir í Tónlistarskóla FÍH í jazzsöng. Eftir langa pásu hóf hún nám þar aftur haustið 2023 og stundar núna nám í rytmískum söng miðstigi. Hildur semur einnig tónlist og gaf út jólalag síðustu jól.
Birgitta Sveinsdóttir er 22 ára gömul tónlistarkona úr Hafnarfirði. Tónlistin hefur fylgt henni frá ungum aldri og þegar hún var aðeins fjögurra ára gömul söng hún á geisladisk með hjálp foreldra sinna. Hún stundaði bæði píanó- og söngnám sem barn, og er nú í námi í rytmískum söng á miðstigi við Tónlistarskóla FÍH. Birgitta hefur einnig verið virk í kórstarfi og hefur sungið bæði í Kór Menntaskólans við Hamrahlíð og Kammerkórnum Huldur. Fyrir utan tónlistarferilinn er hún í grunnskólakennaranámi og starfar samhliða því sem kennari.
Guðrún Ásgeirsdóttir er söngkona úr Reykjavík. Hún hefur stundað tónlistarnám síðan hún barn. Fyrst á píanó Suzukitónlistarskólinn í Reykjavík, hóf svo nám í rytmískum söng í Tónlistarskóla FÍH, 2022 og hefur stundað námið síðan. Fyrir utan tónlistarferilinn er hún útskrifuð úr Háskóla Íslands og starfar með börnum og unglingum.
Vignir Þór Stefánsson byrjaði átta ára gamall að læra á píanó í Tónlistarskóla Árnessýslu og var farinn að leika á dansleikjum átján ára gamall. Hann stundaði djasspíanónám í tónlistarskóla FÍH og lauk einnig tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Vignir flutti til Hollandi til að leggja stund á djasspíanó í Konunglega Tónlistarháskólanum í Haag. Þaðan lauk hann mastersprófi vorið 2001. Vignir hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi, á tónleikum, sjónvarpsþáttum, hljómdiskum og í leikhúsum. Í dag sinnir hann einnig kennslu í Menntaskóla í tónlist (MÍT) og tónlistarskóla FÍH og kennir þar djasspíanó og sér um undirleik hjá söngnemendum.