13.apr ~ 21.júl

Hjartadrottning | Sóley Ragnarsdóttir

Gerðarsafn

Á sýningunni Hjartadrottning birtist áhorfendum heillandi hugar- og efnisheimur myndlistarkonunnar Sóleyjar Ragnarsdóttur.

Á sýningunni Hjartadrottning birtist áhorfendum heillandi hugar- og efnisheimur myndlistarkonunnar Sóleyjar Ragnarsdóttur. Ofurskrautleg málverk og skúlptúrar af ýmsum stærðum og gerðum, fagurlega málaðir veggfletir og sérhannað veggfóður auk sýningarborða með einstöku servíettusafni skapa hér eina heild svo úr verður malerísk innsetning.

Sýningin er í tveim hlutum og samstarfsverkefni Gerðarsafns og Augustiana Kunstpark & Kunsthal á sunnanverðu Jótlandi. Hún ferðast því á milli tveggja staða sem tengjast listakonunni sterkum böndum; hún fæddist á Íslandi en hefur frá unga aldri búið í Danmörku og ólst upp á þeim slóðum þar sem seinni hluti sýningarinnar verður settur upp.

Í dag býr Sóley og starfar í litlum bæ í Thy á norðvestur Jótlandi í mikilli nálægð við Norðursjó. Staðurinn og sérílagi ströndin veitir henni mikilvægan innblástur við listsköpunina og þar safnar hún ýmsum hlutum til að nota í verk sín, bæði náttúrulegum og manngerðum. Skeljar, perlur og raf en líka slípuð glerbrot, plastagnir og annað rusl sem velkst hefur í sjónum um langa hríð, rata í poka listakonunnar á reglulegum göngum hennar meðfram ströndinni. Á vinnustofunni notar hún síðan efnið í málverk og skúlptúra með áhrifaríkum hætti og glæðir þannig verkin lífi.

Verk Sóleyjar eru ekki málverk í hefðbundnum skilningi heldur fljóta á mörkum hins tvívíða og þrívíða forms. Grunnur þeirra er heldur ekki strigi heldur tauservíettur hertar með epoxí og akrylmálningu. Hér mætti tala um útvíkkað málverk en verkin eru líka undir sterkum áhrifum frá Pattern & Decoration hreyfingunni sem var virk í Bandaríkjunum á 8. áratug síðustu aldar, en er lítt þekkt hér á landi. Listafólk hreyfingarinnar, mestmegnis konur, upphóf handverkshefðir og tileinkaði sér hið skrautlega form og hugsun, sem listrænt mótvægi við karllæga hreinlínustefnu módernismans.

Servíetturnar, sem eru formræn undirstaða verkanna, mynda líka hugmyndalegan grunn sýningarinnar. Þeim hefur verið safnað skipulega af mömmu og ömmu Sóleyjar síðan um miðja síðustu öld, bæði á Íslandi og í Danmörku. Nú hefur listakonan haldið áfram söfnuninni en gefið servíettunum nýja listræna merkingu. Í höndum Sóleyjar verða þessir hógværu hlutir, sem líkt og ruslið á ströndinni er einkennandi fyrir „einnota“ menningu nútímasamfélagsins, að svipmiklum og skrautlegum verkum. Servíetturnar eru líka efnislegar leifar kvennamenningar fyrri tíma og geyma minningar um samveru, alúð og væntumþykju.

Í verkum Sóleyjar má finna bæði femíníska og vistfræðilega fleti sem saman mynda marglaga höfundarverk. Í huga listakonunnar hverfist söfnun og sköpun þannig um arfleið, bæði í nútíð og framtíð, og hvernig við getum hlúið að hlutum og stöðum sem við tengist persónulegum böndum um ævina. En verk Sóleyjar eru líka viðbragð við þeim gríðarlegu mengandi áhrifum sem mannfólkið hefur á umhverfi sitt og náttúru, ekki síst á hafið og ströndina. Sýningin er tímanlegt ákall um að staldra við í samtímanum og horfa niður í sandinn –  og gleyma sér í smáatriðunum og skrautinu.

Hjartadrottning er fyrsta einkasýning Sóleyjar Ragnarsdóttur á Íslandi. Hér gefst áhorfendum því einstækt tækifæri að sjá úrval af verkum þessarar upprennandi listakonu, sem eru ólík því sem er efst á baugi í íslenskri samtímalist. Þegar sýningunni lýkur í Gerðarsafni munu verkin ferðast aftur til Danmerkur, þar sem annar hluti sýningarinnar opnar í Augustiana Kunstpark & Kunsthal, Sønderborg síðar sama ár (17.8– 27.10.2024).

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði, Statens Kunstfond og Knud Højgaards Fond.

Sýningarstjóri er Heiðar Kári Rannversson.

Sóley Ragnarsdóttir

Sóley Ragnarsdóttir (f. 1991) er dönsk-íslensk myndlistarkona búsett í Stenbjerg, Thy í Danmörku. Hún lauk meistaraprófi frá Städelschule í Frankfurt, Þýskalandi árið 2019 undir handleiðslu Amy Sillman, Monika Baer og Nikolas Gambaroff. Á síðustu árum hefur Sóley vakið verðskuldaða athygli á danska og alþjóðlega myndlistarsviðinu og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Þá hefur hún haldið nokkrar einkasýningar, m.a. Dot, dot, dot (2021) í Gallery Jean-Claude Maier, Frankfurt, Organizing Principles (2021) á O–Overgaden og Cherrystone (2022) í Formation Gallery, Kaupmannahöfn. Árið 2023 sýndi hún verkið More Love Hours á alþjóðlegu tónlistarhátíðinni Roskilde Festival. Verk Sóleyjar má finna í einkasöfnum erlendis og Statens Kunstfond í Danmörku.

Heiðar Kári Rannversson

Heiðar Kári Rannversson (b. 1982) er listfræðingur og sjálfstætt starfandi sýningarstjóri. Hann var deildarstjóri við Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn frá 2018-2022 og verkefnastjóri fræðslu og viðburða á Listasafni Reykjavíkur frá 2013-2016. Undanfarin tíu ár hefur Heiðar Kári unnið fjölmörg rannsóknar- og sýningarverkefni fyrir innlendar og erlendar liststofnanir, m.a. Nýlistasafnið, Hafnarborg, Listasafn Íslands og Myndlistarmiðstöð. Þá hefur hann sinnt stundakennslu við Háskóla- og Listaháskóla Íslands um árabil. Heiðar Kári hlaut MA próf í listrannsóknum frá Háskólanum í Amsterdam árið 2012 eftir BA nám í Listfræði við Háskóla Íslands og Arkitektúr við Konunglega Listaháskólann í Kaupmannahöfn. Hann hefur verið formaður Listfræðafélags Íslands frá árinu 2023.

Deildu þessum viðburði

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

14
sep
Salurinn
14
sep
Bókasafn Kópavogs
14
sep
Náttúrufræðistofa Kópavogs
16
sep
Bókasafn Kópavogs
17
sep
Bókasafn Kópavogs
18
sep
Bókasafn Kópavogs
18
sep
Bókasafn Kópavogs
18
sep
Gerðarsafn
07
okt
12
okt
Bókasafn Kópavogs
04
nóv
09
nóv
Bókasafn Kópavogs
29
nóv
30
nóv
Salurinn

Sjá meira

Gerðarsafn

18
sep
Gerðarsafn
22
sep
Gerðarsafn
26
sep
Gerðarsafn
09
okt
Gerðarsafn
26
okt
05
jan
Gerðarsafn

Sjá meira