Kynning í formi fyrirlestra og umræðna um þema sýningarinnar, andleg málefni í listum, í tengslum við verk Gerðar Helgadóttur, Hilma af Klint og Rudolf Steiner. Enn fremur verður farið í leiðangur um þemað í samhengi við samtímalist og listsköpun. Viðmælendur: Jón B.K. Ransu (IS), Silvana Gabrielli (IT/CH), og Johannes Nilo (SE/CH),Walter Kugler (CH) og Dawn Nilo (CA/US/CH).
Málþingið verður á ensku og stendur frá kl. 14:00-17:00.
Frítt er inn á viðburðinn og allir eru velkomnir!
Jón B. K. Ransu er myndlistarmaður menntaður í Hollandi á árunum 1990-1995. Árið 2006 tók hann þátt í International Studio and Curatorial Program í New York og hlaut þá styrk úr sjóði The Krasner Pollock Foundation. Ransu starfar einnig sem fræðimaður og er höfundur tveggja bóka um samtímalist. Þá var hann meðhöfundur bókarinnar Gerður: Meistari málms og glers þar sem hann fjallar um tengsl Gerðar Helgadóttur við heimsmyndakenningar G.I. Gurdjieffs. Sem sýningarstjóri hefur Ransu m.a. unnið að sýningum fyrir Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur og Nýlistasafnið. Hann var einn af sýningarstjórum tvíæringsins Momentum 9: Alienation í Moss í Noregi árið 2017. Ransu er deildarstjóri við Listmálaradeild Myndlistaskólans í Reykjavík.
Silvana Gabrielli er ítalskur sýningarstjóri sem býr í Sviss og vinnur með listaverk úr skjalasafni Rudolfs Steiner. Hún hefur MA-gráðu í sýningarstjórn og menningarstjórnun og framhaldspróf í listvísindum. Í meira en fimmtán ár hefur hún haldið vinnustofur, skipulagt sýningar og unnið fræðsluefni fyrir söfn um list og arkitektúr og þátt þeirra í innri þroska og félagsþátttöku. Hún hefur áhuga á heimspekilegum nálgunum við listir og hefur ferðast um mörg lönd til að fræðast um forna menningu og trúarlega list. Eftir að hafa dvalið í mörg ár í Suður-Ameríku lauk hún MA-ritgerð sinni um táknfræði goðsagna þar sem hún kannaði merkingu sammannlegra goðsagna og abstrakt fagurfræði fornra menningarsamfélaga, en hún hefur orðið mörgum samtímalistamönnum að innblæstri.
Walter Kugler nam tónlistarkennslu, þýsku, sögu, menntunarfræði og stjórnmálafræði. Að loknu doktorsprófi kenndi hann við Kölnarháskóla en var svo skipaður prófessor í fögrum listum við Brookes-háskóla í Oxford. Hann kom að heildarútgáfu á verkum Rudolfs Steiner og skjalasafni hans. Í samstarfi við þekkt söfn víða um heim hefur hann stýrt mörgum sýningum á verkum Steiners, einkum krítartöfluverkunum, auk samtímalistamanna á borð við Joseph Beuys, Helmut Federle, Hilmu af Klint og Barböru Klemm. Auk þess hefur hann skrifað um samfélagsmálefni og stjórnmál, tónlist, mannspeki og Rudolf Steiner.
Johannes Nilo er rithöfundur, listamaður og sýningarstjóri. Hann lærði málaralist, trúarbragðasögu og heimspeki í Stokkhólmi, Moskvu og Heidelberg. Á árunum 2002–2006 vann hann rannsókn á hugmynd Rudolfs Steiner um sálina við Friedrich von Hardenberg Institute í Heidelberg. Frá 2006 hefur hann búið í Sviss og unnið við Forschungsstelle Kulturimpuls (2006–2013), Rudolf Steiner-Archive (2008–2011), og 2011–2018 sem forstöðumaður Goetheanum Dokumentation sem er skjala-, bóka- og listasafn.
Dawn Nilo sækir innblástur í erkitýpurnar (frummyndirnar) alkemistann og fíflið. Hún skrifar ljóð sem kanna andhverfu hins þekkta og hins óþekkta sem vitsmunalega fáránlegan barnaskap. Dawn lék fíflið og kenndi við Waldorf-skóla í tíu ár en hóf feril sinn í myndlist þegar Paul Chan gaf út The Question, rafbók með ljóðum hennar. Síðan þá hefur hún unnið og sýnt með mörgum listamönnum og sýningarstjórum, m.a. Tino Sehgal, Simone Forti, John Giorno, Klaus Biesenbach, Tom Stromberg, Chus Martinez og Poka Yio. Verk hennar hafa verið sýnd í stofnunum á borð við Schaulager og Kunsthalle Basel í Sviss, og Leopold-safnið and Volx/Margarethen-leikhúsið í Vín. Árið 2017 var hún tilnefnd til svissnesku performanslistaverðlaunanna. Dawn fæddist í Vancouver í Kanada en býr nú í Basel.