11.okt ~ 10.nóv

Markmið XV

Gerðarsafn

11.10.2014-10.11.2014

Listamennirnir Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og Pétur Örn Friðriksson opnuðu sýninguna Markmið XV 11. október 2014 í efri sölum Gerðarsafns.

Markmið er samstarfsverkefni þeirra Helga og Péturs og samanstendur af fjölbreyttum verkefnum sem sýnd eru og birt á sjónrænan hátt. Markmið er það sem það er hverju sinni; spunaverkefni.
Upphafið af samstarfinu hófst með sýningu í Gallerí Hlemm árið 2000. Þeir hafa þróað verkefnið frá þeim tíma  þar sem þeir nota eldri hluti og senur frá fyrri sýningum þannig að allt tengist en án þess að vera kerfisbundið. Hver sýning er millistig síðustu sýningar og þeirrar næstu. Sýningin í Gerðarsafni var sú fimmtánda í röðinni.

Á fyrri sýningum Markmiðs hafa þeir smíðað ýmis furðutæki og farskjóta fyrir óhugsandi aðstæður, framleitt og útvegað ferða- og björgunarbúnað, hannað og smíðað báta og fenjadreka, farið í kappakstur og eftirför á Volvo, gert athuganir með fyrirbærið orfplanki, skotkeppni með fjarstýrðu skotmarki og skreyttum markmyndum, sviðsett innbrot og vopnasöfnun, tekið landslagsljósmyndir með hjálp eldflauga, flugdreka og sérútbúnum gjörðum sem renna niður fjallshlíðar.
Markmiðs

Sköpun, flæði, sköpunarflæði
Sköpun, flæði, sköpunarflæði

Sköpun: Kv. 1 Það að skapa, búa til: s. heimsins; lists. Sköpunar-gáfa. 2 hið skapaða: maðurinn er s. guðs, sköpunar-verk.[1]
Sköpun: Kv. 1 Það að skapa, búa til: s. heimsins; lists. Sköpunar-gáfa. 2 hið skapaða: maðurinn er s. guðs, sköpunar-verk.[1]
Manneskjan er í eðli sínu skapandi vera sem hefur óseðjandi þörf til að búa til hluti. Sköpun getur jafnvel verið ákveðin sýn hennar á heiminn, að hann sé skapaður og að hún sé sköpuð í honum. Þegar endurreisnarlistamaðurinn Michelangelo túlkaði sköpun mannsins í óviðjafnanlegri freskumynd í Sixtísku kapellunni lagði hann áherslu á höndina sem holdgerving sköpunar. Guð birtist á himnum sem gráskeggjaður vitringur umkringdur berstrípuðum englum, og réttir höndina í átt til Adams sem situr máttlaus á grasbletti og lyftir letilega upp vísifingri til að taka á móti lífsgjöfinni. Hendurnar eru miðpunkturinn, lykilatriðið í þessari táknmynd sköpunar, en þær snertast ekki. Vísifingur Guðs og Adams eru rétt í þann mund að gneista saman eins og til að sýna okkur að ein og sér sé hugmyndin um manninn líflaus, að það sé í gegnum höndina sem sköpunarverkið öðlist líf.
Í fyrirbærafræði Maurice Merleau-Pontys er fjallað um sjálfveru okkar sem líkamsveru þar sem líkaminn er aldrei óháður heiminum í kring.[2]  Samband hugar og líkama er þannig að hver sá sem sest upp í bílinn sinn að mánudagsmorgni, leggur hendur á stýrið og ekur af stað í vinnu eða skóla, stækkar líkamlegt skynsvið sitt þannig að hann hugsar bílinn sem framlengingu á sér sjálfum. Ferðalag ökutækisins stjórnast þá af líkamlegum vitsmunum ökumannsins, en án þeirra mundi viðkomandi vafalaust keyra á fyrstu fyrirstöðu sem yrði á vegi hans.
Fyrirbærafræði Merleau-Pontys gerir ráð fyrir því að líkaminn geymi sjálfur þekkingu og hafi jafnvel minni.  Listamaður sem hefur til dæmis mótað mannslíkama í leir eða höggvið hann út í marmara um árabil hefur öðlast líkamlega þekkingu og minni um efnið.  Hann þarf ekki að taka hugmyndalega ákvörðun um hvert smáatriði í vinnuferlinu. Þekkingin og minningin er greipt í líkama hans.
Áhöld sem listamaður tekur sér í hendur til að skapa listaverk eru, í fyrirbærafræðilegu samhengi, ekki einungis milliliður frá listamanni til listaverks heldur eru þau framlenging á honum sjálfum,  hvort sem hann heggur, sagar, slípar, málar eða teiknar með þeim.  Finnski arkitektinn Juhan Pallasmaa orðar það þannig: „Áhaldið er framlenging og sérhæfing handarinnar sem breytir náttúrulegri getu og möguleikum hennar“.[3]  Áhaldið leyfir þá höndunum að skapa form sem þeim er ekki kleift upp á eigin spýtur. Sjálfveran sem líkami er þá í beinni snertingu við sköpunarverkið gegnum áhaldið og glæðir það lífi, líkt og hönd Guðs er í þann mund að gera við Adam.
Flæði: H […] 4 Það að flæða, streyma út, dreifast jafnt út í annað efni.[4]
Flæði: H […] 4 Það að flæða, streyma út, dreifast jafnt út í annað efni.[4]
Margir listamenn segja nautnina við að skapa vera það að komast í flæði. Ungverski sálfræðingurinn Mihaly Csikszentmihalyi, sem öðrum fremur hefur reynt að útskýra þetta eftirsóknaverða flæði, segir það ekki vera skilyrði sköpunar en afar mikilvægan þátt í margbreytileika hennar vegna þess að í flæðinu komist listamaðurinn gegnum hindranir og yfir mörk. Flæðið reynist listamanninum í senn örvandi og gefandi.
Samkvæmt hugmyndum Csikszentmihalyi þarf listamaður að gefa sér þrjár forsendur í sköpun sinni svo hann komist í flæði. Hann þarf að finna jafnvægi á milli hæfileika sinna og áskorana, hann þarf að setja sér markmið til að hafa yfirsýn á aðgerðir sínar og hann þarf að fá viðbrögð við verkum sínum, til dæmis með því að sýna þau. Þessar þrjár forsendur auðvelda honum að komast í flæði.
Csikszentmihalyi heldur því fram að listamenn temji sér að nota áhöld sem ýti undir flæðið,[5] áhöld sem eru þeim eðlileg framlenging handanna. Listamaður sem skapar í flæði er í raun að nota líkamlega vitsmuni sína þegar hann setur listaverkið í form. Sá sem skapar í höndunum og er í flæði gleymir stund og stað og er bókstaflega í sköpuninni, í „sköpunarflæði“. Hann stjórnast ekki af rökhugsun um hverja hreyfingu handa sinna.  Hann treystir á þekkingu og minni þeirra um leið og hann nýtur augnabliksins undir stjórn flæðisins. Þar liggur ánægja hans í listsköpuninni, drifkraftur og ástæða til að stunda iðju sína. Jafnvel tilgangur listsköpunar hans. Flæðið verður honum eins og lífsorkan sem Adam sækist eftir þegar hann lyftir upp vísifingur á móti útréttri hönd Guðs.
Sköpunarflæði: H Orðasamsetning. Sköpun, flæði.
Sköpunarflæði: H Orðasamsetning. Sköpun, flæði.
Helgi Hjaltalín Eyjólfsson (f. 1968) og Pétur Örn Friðriksson (f. 1967) eru listamenn sem skapa í flæði.  Báðir hafa unun að því að vinna í höndunum og starfa við ýmiskonar smíðar og leikmunagerð samhliða listsköpuninni. List þeirra einkennist af uppfinningasemi, tilraunasemi og „ánægjunni að búa til“, svo ég vitni í orð Helga.
Helgi er kunnur fyrir vandaða smíðaða hluti sem oft taka á samfélagslegum málefnum, en flæðið útilokar ekki samfélagslega gagnrýna list eða hugmyndalega nálgun við list. Listamaður getur verið bundinn ákveðnu verkefni, svo sem einhverju tilteknu  rými, þema eða að hann lúti sértækri hugmyndafræði um list og samt unnið í flæði.
Helgi vakti fyrst athygli fyrir listaverk sem einnig voru vopn, og hægt að brúka sem slík. Flest hans verk eru unnin í trjávið, þótt vissulega komi annar efniviður við sögu, eins og járn og  plast. Undanfarin ár hefur listamaðurinn einnig tekið ástfóstri við vatnslitinn, en vatnslitamyndir hans virðast þó ávallt hugsaðar sem hluti af „objekt“, eins og sönnum myndhöggvara sæmir.
Pétur birtist fyrst á sjónarsviði listarinnar með rafknúin listaverk þar sem ýmiskonar gangverk fengu hlutverk í konstrúktífum höggmyndum. Hverskyns snúningur eða hljóð þjónar þá fagurfræðilegum tilgangi fremur en að virkni hans sé rökrænn partur af hlutnum.  Hluturinn hefur síðar fengið meira vægi í list hans þótt hann hafi ekki sagt skilið við gangverkið og hlutir hans hafa ætíð einhverskonar virkni þótt það liggi ekki endilega fyrir hver hún er.
Þá hefur Pétur einsett sér að endurgera listaverk sín endrum og eins. Hann gengur samt að endurgerðinni sem óvissuferð. Útkoman er aldrei fyrirfram gefin, jafnvel þótt að frummyndin sé þegar til. Endurgerðin verður allt annað og nýtt listaverk þegar flæðið fær að ráða.
Leiðir Helga og Péturs lágu fyrst saman í listnámi í Myndlista og handíðaskólanum og svo aftur í framhaldsnámi í AKI (Akademie Voor Beeldene Kunst) í Hollandi. Þótt þeir starfi sem sjálfstæðir listamenn starfa þeir líka saman og sýna þá undir nafninu Markmið. Sem tvíeyki nýta þeir hæfileika hvors annars og tvinna saman sérþekkingu beggja. Vinnuferli þeirra hefst með hugmynd sem þeir velta sín á milli, finna sér hlutverk í framkvæmdinni og byrja að forma hana. Stundum á hugmyndin ekki erindi í samstarf og annar þeirra tekur hana upp á sína arma. Í öðrum tilfellum þróast hugmyndin í vinnsluferlinu. Þar tekur hún breytingum í efni og formi eftir hlutverkaskiptingu listamannanna. Að lokum hefur hún vaxið í listaverk. Fátt rökrænt er í þessu ferðalagi hugmyndarinnar til listaverks í höndum listamannanna og eflaust er listaverkið ekki einu sinni rökræn útfærsla á hugmyndinni. En þannig er það í flæðinu, rétt eins og í freskumynd Michelangelos. Hún telst varla rökræn útfærsla á sköpun mannsins. En hún segir okkur sitthvað um sköpun og flæði.
Jón B. K. Ransu
[1] Árni Böðvarsson, Íslensk orðabók, Bókaútgáfa Menningarsjóðs Reykjavík, 1983.
[2] Maurice Merleau-Ponty, Phenomenology of Perception, Routlidge, 2004.
[3] Juhani Pallasmaa, The Thinking Hand, John Wiley & Sons Ltd., 2009.
[4] Árni Böðvarsson, Íslensk orðabók, Bókaútgáfa Menningarsjóðs Reykjavík, 1983.
[5] Mihaily Csikszentmihayi, Creativity. Flow and the Pshicology of Discovery and Invention, Harper Perennial, 1997.

LISTAFÓLK

Helgi Hjaltalín Eyjólfsson

Pétur Örn Friðriksson

Deildu þessum viðburði

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

30
des
Salurinn
03
jan
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

04
jan
Bókasafn Kópavogs
06
jan
Bókasafn Kópavogs
07
jan
Bókasafn Kópavogs
07
jan
Bókasafn Kópavogs
08
jan
Bókasafn Kópavogs
08
jan
Bókasafn Kópavogs
08
jan
Náttúrufræðistofa Kópavogs
16:15

Tunglið

Sjá meira

Gerðarsafn

11
jan
Gerðarsafn
25
jan
19
apr
Gerðarsafn

Sjá meira