Á innsetningunni Skríðum inn í skel, í fræðslurými Gerðarsafns, tefla hönnuðir ÞYKJÓ fram litlum líkönum í skalanum 1:5 að ,,Kyrrðarrýmum” sem eru innblásin af skjaldbökum, sniglum, kuðungum og fleiri skeldýrum og Sóley Stefánsdóttir tónlistarkona kitlar ímyndunaraflið í gegnum eyrun okkar. Hvernig hljómar rigningin þegar við sitjum inni í skel og hlustum? Er hægt að flauta inni í kuðung? Kuðungur vex hring eftir hring en hvernig ferðast hljóðbylgjur ofan í vatninu?
Safngripum úr eigu Náttúrufræðistofu Kópavogs er stillt upp í sama rými og skapa samtal við míniatúr líkön Gerðar Helgadóttur að skúlptúrum sínum sem minna einmitt á kuðunga, spírala og kúpla. Á stöku stað má sjá litla tindáta og ýmsar fígúrur sem fá okkur til að sjá þessa litlu hluti með öðrum augum, lítið verður stórt og stórt verður lítið.
,,Sniglar koma upp úr moldinni þegar það rignir, þeir geta líka bara alltaf farið inn í skelina sína ef þeir nenna ekki að vera meira úti í rigningunni”.
„Ef ég gæti minnkað mig myndi ég vilja liggja á maganum inni í skjaldbökuskel og bara lesa í friði með vasaljós.”
Hönnuðir ÞYKJÓ eru staðarlistamenn í Kópavogi 2021. ÞYKJÓ hannar búninga, fylgihluti og innsetningar sem örva ímyndunarafl og sköpunargleði.
ÞYKJÓ skipa Sigríður Sunna Reynisdóttir, Ninna Þórarinsdóttir, Tanja Huld Leví Guðmundsdóttir, Erla Ólafsdóttir og Sigurbjörg Stefánsdóttir.
Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar styrkir listamannadvöl ÞYKJÓ.