Rannsóknir á smádýrum í Elliðaánum

Út er komin skýrsla þar sem niðurstöðum árlegrar vöktunar Náttúrufræðistofu Kópavogs á smádýralífi í Elliðaánum, sem fram fór síðastliðið haust, eru gerð skil. Megintilgangur vöktunarinnar er að varpa ljósi á ástand mikilvægra smádýrastofna í vistkerfi árinnar og fylgja eftir fyrri rannsóknum.
Niðurstöður vöktunarinnar gefa til kynna að þrátt fyrir breytingar milli ára fellur sá breytileiki innan marka þegar hann er skoðaður yfir lengra tímabil og að þéttleiki innan helstu hópa hryggleysingja er svipaður og fyrri ár.
Rannsóknin sem hér er greint frá var framkvæmd að beiðni Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Verkið annaðist Náttúrufræðistofa Kópavogs og fór sýnataka fram fyrri hluta september 2012. Megintilgangur rannsóknarinnar var að fylgja eftir fyrri rannsóknum á lífríki Elliðaánna sem varpa ljósi á ástand mikilvægra smádýrastofna í vistkerfinu. Reglubundin vöktun er tól til að fylgjast með mögulegum áhrifum álagsþátta á vistkerfi ánna. Slíkir álagsþættir geta m.a. tengst umferð og byggð.
Niðurstöðurnar sem hér eru birtar eru byggðar á botnsýnum sem tekin voru á þremur stöðvum á vatnasviði Elliðaánna. Efsta stöðin var ofarlega í vatnakerfinu, í Hólmsá, næsta stöð var um miðbik þess, rétt neðan Elliðavatns (stöð 1), og þriðja stöðin var neðarlega, við svokallaðan Móhyl (stöð 4).
Stærstu hópar botnhryggleysingja í Elliðaánum í september 2012 voru rykmýs- og bitmýslirfur, en mikill munur var í þéttleika dýranna milli stöðva. Þannig var þéttleiki rykmýslirfa á bilinu 41.730 til 104.811 lirfur/m2 og þéttleiki bitmýslirfa á bilinu 101 til 425.677 lirfur/m2.
Heildarfjöldi hryggleysingja var einnig mjög breytilegur milli stöðva, eða um 187.000 einstaklingar/m2 í Hólmsá, 611.000 einstakl./m2 á stöð 1 og 109.000 einstakl./m2 á stöð 4. Munurinn skýrist m.a. af mismunandi búsvæðavali tiltekinna tegunda, en bitmýslirfur voru t.d. langflestar á stöð 1 næst útfalli Elliðavatns. Þetta endurspeglar ríkulegt lífrænt rek úr vatninu, en bitmýslirfur lifa á þörungum og öðrum lífrænum ögnum sem þær sía úr rekinu.
Samanburður á gögnum frá 1982, 1990–1996, 2011 og 2012 leiðir í ljós að þéttleiki helstu hópa hryggleysingja er svipaður milli ára.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

02
des
07
des
Bókasafn Kópavogs
05
des
Bókasafn Kópavogs
05
des
Bókasafn Kópavogs
05
des
Gerðarsafn
06
des
Salurinn
06
des
Bókasafn Kópavogs
11:00

Get together

07
des
Bókasafn Kópavogs
07
des
Salurinn
07
des
Gerðarsafn
08
des
Salurinn

Sjá meira