Í nýlegri skýrslu á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs og Matís ohf. er gerð grein fyrir mæliniðurstöðum á snefilefnum í sýnum úr lífríki Þingvallavatns sem tekin voru á árunum 1989–2012 í tengslum við affallsvatn frá Nesjavallavirkjun.
Meginniðurstöður eru þær að ekki gætir marktækra áhrifa á lífríki vatnsins af völdum snefilefna sem hægt er að rekja með óyggjandi hætti til virkjunarinnar. Aftur á móti eru vísbendingar um aukinn styrk á seleni í botnseti og kopar í lifur dvergbleikju á áhrifastaðnum sem þarfnast nánari athugunar. Jafnframt eru vísbendingar um kvikasilfursmengun í fiskholdi í sýnum frá árinu 2012, en vegna lítils sýnaúrtaks eru niðurstöðurnar ekki óyggjandi.
Meginmarkmið vöktunarinnar sem kostuð er af Orkuveitu Reykjavíkur er að fylgjast með hugsanlegum áhrifum ólífrænna snefilefna í affallsvatni virkjunarinnar á lífríki Þingvallavatns þannig að bregðast megi við ef í óefni stefnir. Nýjustu mæliniðurstöður eru úr sýnatöku haustið 2012 en í skýrslunni eru einnig teknar saman niðurstöður fyrri ára og meðal annars birtar í fyrsta sinn niðurstöður mælinga á sýnum frá 2006. Eftirfarandi efni hafa verið mæld; kvikasilfur (Hg), arsen (As), selen (Se), króm (Cr), kopar (Cu), kadmíum (Cd), blý (Pb, ekki mælt í fiski 2012), járn (Fe), sink (Zn, ekki mælt 2012) og mangan (Mn).
Samanburður sem nær til allra rannsóknanna á snefilefnum í botnseti, gróðri, hryggleysingjum og fiski í Þingvallavatni, sem annars vegar voru tekin á áhrifastað Nesjavallavallavirkjunar og hins vegar á viðmiðunarstað utan áhrifasvæðis virkjunarinnar, leiðir í ljós að ekki er um tölfræðilega marktækan mun að ræða í meðalstyrk efna milli áhrifa- og viðmiðunarstaðar, nema hvað varðar selen í seti, kopar í dvergbleikju og mangan í síkjamara og vatnabobbum. Selen í seti og kopar í lifur dvergbleikju mældust í hærri styrk á áhrifastöðum, en mangan mældist í hærri styrk á viðmiðunarstöðum.
Selen hefur ekki verið mælt í vatni í tengslum við affallsvatn Nesjavallavirkjunar og ekki er ljóst af hverju það mælist meira í seti í Varmagjá en annarsstaðar. Tengsl selens við eldvirkni eru hins vegar þekkt og því kann meiri styrkur í Varmagjá að tengjast affallsvatni frá virkjuninni. Því er mælst til þess að selen í vatni verði mælt í vöktunarverkefninu. Mælingar á kopar í vatni á áhrifastað benda ekki til breytinga á styrk hans í kjölfar Nesjavallavirkjunar. Aukinn koparstyrkur í lifur dvergbleikja verður því tæplega rakinn til áhrifa vegna virkjunarinnar. Náttúrulegt bakgrunnsgildi kopars virðist vera fremur hátt í Þingvallavatni og kann það að skýra af hverju kopar mælist tiltölulega mikill í dvergbleikju, sem og í seti, síkjamara og vatnabobbum.
Þegar fiskigögn úr sýnatökunni haustið 2012 voru leiðrétt m.t.t. aldurs benda niðurstöður til þess að styrkur allra snefilefna nema blýs og kadmíums sé meiri í dvergbleikjum á áhrifastað en viðmiðunarstað. Þetta átti sérstaklega við um kvikasilfur í holdi en uppsöfnun kvikasilfurs í lífverum og styrksmögnun í fæðukeðjunni er vel þekkt fyrirbæri. Þessi niðurstaða kann að benda til mengunaráhrifa af völdum virkjunarinnar, en vegna þess hve fáir fiskar liggja að baki mælingunum frá áhrifastaðnum árið 2012, aðeins fimm, er niðurstaðan ekki afdráttarlaus. Þegar gögn frá öllum árunum voru höfð undir í samanburðinum kom þessi munur ekki fram. Þá er rétt að benda á að öll mæligildi á kvikasilfri í dvergbleikju og öðrum fiskum í rannsókninni eru langt undir hámarksgildi fyrir aðskotaefni í matvælum á Íslandi (0,5 mg/kg votvigt, sbr. reglugerð nr. 265/2010).
Arsen, blý, kadmíum og kvikasilfur eru þau efni sem hingað til hafa helst verið talin geta haft neikvæð áhrif á lífríki í Þingvallavatni í tengslum við affallsvatn frá Nesjavallavirkjun. Niðurstöður mælinganna sem nú liggja fyrir benda ekki til neinna tölfræðilegra marktækra áhrifa á lífríkið af völdum þessara snefilefna.
Mangan og sink voru einu efnin sem mældust í meiri styrk á viðmiðunarstöðunum. Ekki er víst af hverju þetta stafar en orsakanna gæti verið að leita í staðbundnum mengunarvöldum.