Á dögunum stóðu menningarstofnanir Kópavogs að kynningar- og fræðsluátaki fyrir níundu bekkinga í grunnskólum Kópavogs. Markmið átaksins var að kynna starfsemi stofnananna og var lögð áhersla á möguleika nemenda til að nýta þær sem innblásturs- og upplýsingaveitur og hvetja nemendur til skapandi, en jafnframt gagnrýninnar hugsunar.
Á Náttúrufræðistofu Kópavogs var fjallað sérstaklega um upplýsingaöflun á netinu og hvað helst ber að varast við slíka upplýsingaöflun. Reynt var að svara spurningum eins og hvað eru „réttar upplýsingar“ og tekin dæmi um hvernig framsetning upplýsinga skiptir máli. Áhersla var lögð á að nemendur tileinkuðu sér gagnrýna hugsun, öfluðu sér upplýsinga og reyndu að meta gæði þeirra við ákvarðanatöku og skoðanamyndun. Í lokin fengu nemendur verkefni þar sem þeir ræddu nokkur álitamál, s.s. hvort heimila ætti veiðar á heiðlóu og hvort selja bæri aðgang að Esjunni.