Í liðinni viku fór starfsfólk náttúrufræðistofunnar í kynnisferð til Stokkhólms. Markmið ferðarinnar var að skoða ný eða nýlega endurgerð söfn og sýningar í þeim tilgangi að safna í hugmyndabrunn vegna fyrirhugaðra endurbóta á grunnsýningu Náttúrufræðistofu Kópavogs.
Í ferðinni voru skoðuð afar fjölbreytt söfn, allt frá Wasa museum, þar sem áherslan snýst að mestu leyti um einn grip frá árinu 1628, yfir í Tekniska museet þar sem tæknisögu Svíþjóðar eru gerð skil og gestir leiddir á áþreifanlegan hátt gegn þróun í tölvutækni og tölvuleikjum frá upphafi, svo fátt eitt sé nefnt.
Sérstök áhersla var lögð á að kynna sér lausnir í miðlun upplýsinga á hinum mismunandi tungumálum en einnig lausnir við sýningarhald, lýsingu og margmiðlun. Þá bar ævinlega á góma tengsl við skóla og hvernig skipulögðum leiðsögnum nemenda er háttað.