Brynja Hjálmsdóttir hlýtur Ljóðstafinn 2022

Ljóðstafur Jóns úr Vör var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 20. febrúar en hátíðin fagnar tuttugu ára afmæli sínu um þessar mundir.

Ljóðstafinn hlaut Brynja Hjálmsdóttir fyrir ljóðið Þegar dagar aldrei dagar aldrei.

Jakub Stachowiak hlaut önnur verðlaun fyrir ljóðið Dreymt á jafndægurnótt og þriðja sæti hlaut Elín Edda Þorsteinsdóttir fyrir ljóðið Kannski varstu allan tímann nálægt.

Að auki hlutu sjö ljóð sérstaka viðurkenningu dómnefndar: Svefnrof eftir Draumeyju Aradóttur, Getraunir eftir Guðrúnu Brjánsdóttur, Vista Canale eftir Hallgrím Helgason, Kvöldganga að hausti eftir Jón Hjartarson, Það sem ég á við með með orðinu hjónasæng eftir Ragnar H. Blöndal og Silfurstrengir og A-hús eftir Sigrúnu Björnsdóttur.

212 ljóð bárust í keppnina að þessu sinni í ár  en ljóðin mega ekki hafa birst áður og skulu send inn undir dulnefni höfundar. Dómnefnd skipuðu að þessu sinni Ásta Fanney Sigurðardóttir (formaður), Anton Helgi Jónsson og Kristín Svava Tómasdóttir.

Brynja Hjálmsdóttir (f. 1992) er með BA-gráðu í kvikmyndafræði og MA-gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands. Hún hefur sent frá sér ljóðabækurnar Okfruman (2019) og Kona lítur við (2021) og átt skáldverk í fjölda safnrita og tímarita. Brynja hefur hlotið Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókabúða og verið tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og Rauðu hrafnsfjaðrarinnar. Meðfram ritstörfum hefur Brynja starfað sem bóksali, kennari, textasmiður og gagnrýnandi.

Ljóðstafur Jóns úr Vör er haldinn af Lista- og menningarráði Kópavogsbæjar en efnt var til samkepninnar árið 2001 í minningu skáldsins Jóns úr Vör (1917- 2000. Verðlaunahafar hljóta peningaverðlaun og sigurskáldið hlýtur til varðveislu í eitt ár göngustaf Jóns úr Vör. Á stafinn er festur skjöldur með nafni verðlaunahafa ásamt ártali.

Verðlaunahafar, viðurkenningar og dómnefnd Ljóðstafsins 2022.
Verðlaunahafar, viðurkenningar og dómnefnd Ljóðstafsins 2022.

Við sama tilefni voru veitt verðlaun í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs sem fyrst var haldin árið 2012 og var dómnefnd sú sama.

Þar hlaut 1. verðlaun Friðjón Ingi Guðjónsson, 10. bekk Álfhólsskóla fyrir ljóðið Hugmynd. Í öðru sæti var Sóley June Martel, 6.bekk, Salaskóla fyrir ljóðið Þegar maður leggst í mosa og í þriðja sæti var Lukasz Tadeusz Krawczyk, 9. bekk Álfhólsskóla fyrir ljóðið Hjartað.

Viðurkenningar hlutu Nína Rut Þorvarðardóttir, Jóhanna Líf Heimisdóttir, Högni Freyr Harðarson, Hrafnhildur Freyja Einarsdóttir, Áróra Ingibjörg Magnúsdóttir og Dagur Andri Svansson.

ÞEGAR DAGAR ALDREI DAGAR ALDREI

Alltaf springa þau
á veturna
handarbökin
ekki í loft upp heldur eftir rásum

Skurðir kvíslast
skinn flagnar
eins og í mótmælaskini:
nú er nóg komið

Sprungur
í uppurinni uppsprettu
mósaíkmynd
fúgan milli flísanna er rauð

Rauðir skipaskurðir:
gluggar inn í annan heim
innanverðan heiminn

Hún ber smyrsl á öll þessi ósköp
eins og til að sparsla í gamlar holur
sem hún boraði ekki sjálf
ekki ein í það minnsta
en hér alltaf svo kalt og smyrslið
bara frýs
eins og hvað annað

Hér er auðvelt að gleyma
að sólin sé alvöru himintungl

En alltaf finnst fólk
sem er of latt
til að bera inn ljósin hundraðþúsund
sem það strengdi í trén
fléttaði um svalirnar
um handriðin og húnana

Fólkið er þreytt

Því hanga þau þarna enn
sindrandi

tær

Brynja Hjálmsdóttir

Verðlaunahafar og viðurkenningarhafar í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

14
sep
Salurinn
20:30

Himinn & jörð

14
sep
Bókasafn Kópavogs
11:00

Tala og spila

14
sep
Náttúrufræðistofa Kópavogs
13:00

Haustkórónur með ÞYKJÓ

16
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Sófaspjall um andleg mál

17
sep
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

18
sep
Bókasafn Kópavogs
14:00

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

18
sep
Bókasafn Kópavogs
16:00

Bókmenntaklúbburinn Hananú!

18
sep
Gerðarsafn
12:15

Hljóðvefur um Hamskipti

21
sep
Bókasafn Kópavogs
11:00

Tala og spila

21
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Friðardúfur á friðardegi

21
sep
Salurinn
20:00

Söngkvöld með hljómsveit Geirmundar Valtýssonar

21
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Vísindakakó

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR