,

Vala Hauksdóttir hlýtur Ljóðstaf Jóns úr Vör 2024

Ljóðstafur Jóns úr Vör var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi sunnudaginn 21. janúar. Ljóðstafinn hlaut Vala Hauksdóttir fyrir ljóðið Verk að finna.

Önnur verðlaun hlaut Elísabet Dröfn Kristjánsdóttir fyrir ljóðið Skyggnishnignun og þriðju verðlaun hlaut Ragnheiður Harpa Leifsdóttir fyrir ljóðið Deig.

Að auki hlutu sex ljóð sérstaka viðurkenningu dómnefndar. Í móðurkviði eftir Draumeyju Aradóttur, Straumönd eftir Elínu Elísabetu Einarsdóttur, Stríðsyfirlýsing eftir Höllu Þórðardóttur, Fálæti og Legið yfir gögnum eftir Jón Knút Ásmundsson og Segðu mér eitthvað fallegt eftir Ragnar Jónasson. Lestu ljóðin hér.

270 ljóð bárust í keppnina í ár en ljóðin mega ekki hafa birst áður og skulu send inn undir dulnefni höfundar. Dómnefnd skipuðu Kristín Svava Tómasdóttir (formaður), Þórdís Helgadóttir og Þórður Sævar Jónsson.

Úrslit í Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs

Við sama tilefni voru veitt verðlaun í ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs. Þar hlaut fyrstu verðlaun Alexander Aron Jörgensson í 10. bekk í Lindaskóla fyrir ljóðið Appelsínur en Alexander hlaut einnig fyrstu verðlaun í sömu keppni fyrir réttu ári. Önnur verðlaun hlaut Inga Bríet Valberg, 5. bekk í Snælandsskóla fyrir ljóðið Ég og hún og þriðju verðlaun hlaut Sigurlín Viðarsdóttir, 10. bekk í Lindaskóla fyrir ljóðið Mjöll, Fönn og Drífa.

Sérstakar viðurkenningar hlutu þau Angelo Mikael Korale Arachchige, 9. bekk í Lindaskóla fyrir ljóðið Batmann, Evelina Sóley Arthur, 7. bekk í Kársnesskóla fyrir ljóðið Fuglaljóð, Elsa Hlín Sigurðardóttir, 9. bekk í Lindaskóla fyrir ljóðið Sumarið, Ríkharður Óli Brynjarsson, 10. bekk í Lindaskóla fyrir ljóðið Að vera ég, Sóldís Anahita Shahsafdari, 6. bekk í Álfhólsskóla fyrir ljóðið Úti og Alexander Aron Jörgensson fyrir ljóðið Í öðrum heimi.

Um Völu Hauksdóttur

Vala Hauksdóttir (f.1992) hefur skrifað smásögur, ljóð, dagbækur og hugleiðingar frá barnsaldri og stundar nú meistaranám í ritlist við Háskóla Íslands. Að loknu námi við Fjölbrautaskóla Suðurlands nam Vala ferðamálafræði við Háskóla Íslands og Háskólann í Limerick í Írlandi. Hún starfar nú sem verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Suðurlands og hefur unnið fjölbreytt störf tengd ferðaþjónustu í rúman áratug. Vala er grúskari með ástríðu fyrir íslenskri náttúru, menningu og sögu og var einn höfunda að samskotsverkinu Einangrun sem Lakehouse Theatre Company stóð fyrir á Listahátíð í Reykjavík árið 2021. Vala er nýstigin inn í heim ritlistarinnar af fullum þunga og stefnir á frekari ritstörf á næstu misserum.

Sigurljóð Ljóðstafs Jóns úr Vör 2024

Verk að finna

Hrífuskaftsflís
í hengibrúnni milli bendifingurs og þumals.

Útsaumsnál
undir baugfingursnögl.

Skeljasandur
í hælsæri.

Hrossafælir
sem skýst með þyt undan þúfu

              fall

að missa andann –
sortna fyrir augum
í lyngi.

Sælan er skortur
á öllu nema tíma
til verkja.

Hamingjan
er sigg.

Vala Hauksdóttir

Umsögn dómnefndar um sigurljóðið

Upphafslínur ljóðsins slá tóninn: einföld en áhrifarík mynd af flís sem gengur inn í hold. Myndirnar sem brugðið er upp í ljóðinu af aðskotahlutum sem særa líkamann eru hárnákvæmar, tálgaðar og allt að því óþægilegar. Agað formið kallast á við efniviðinn og ljóðskáldið teflir saman mýkt og hörku af miklu listfengi. Húðin verður tákn fyrir aðlögunarhæfni, þrautseigju og umbreytingarmátt manneskjunnar. Í upphafi ljóðsins er húðin mjúk og næfurþunn og það þarf lítið til að raska ró hennar; flís, sandkorn, nálarodd, en í fyllingu tímans breytist húðin í sigg, ekkert bítur á henni lengur, þar má finna hamingju og sátt. Ljóðið er hugleiðing um líkama og meðvitund, sársauka og erfiði, og þau spor sem lífsreynslan skilur eftir sig. Þetta er texti sem má og þarf jafnvel að lesa ítrekað og leitar lengi á huga lesandans.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

16
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Sófaspjall um andleg mál

17
sep
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

18
sep
Bókasafn Kópavogs
14:00

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

18
sep
Bókasafn Kópavogs
16:00

Bókmenntaklúbburinn Hananú!

18
sep
Gerðarsafn
12:15

Hljóðvefur um Hamskipti

21
sep
Bókasafn Kópavogs
11:00

Tala og spila

21
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Friðardúfur á friðardegi

21
sep
Salurinn
20:00

Söngkvöld með hljómsveit Geirmundar Valtýssonar

21
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Vísindakakó

22
sep
Gerðarsafn
12:00

Gluggar Gerðar

23
sep
Bókasafn Kópavogs
13:00

Sófaspjall um andleg mál

24
sep
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR