Kristín Loftsdóttir prófessor í mannfræði fjallar um sýnileika og ósýnileika jaðarsettra hópa og uppgjör við kynþáttahyggju í hádegiserindi.
Fyrirlesturinn er haldinn í tengslum við sýninguna Að rekja brot (Tracing Fragments) sem nú stendur yfir í Gerðarsafni.
——————
Á síðustu árum hefur verið aukin krafa um réttlæti og sýnileika jaðarsettra hópa og uppgjör við kynþáttahyggju sem hluta af fortíð og samtíð.
Í fyrirlestrinum eru hugtökin sýnileiki og ósýnileiki notuð til að nálgast óuppgerða fortíð og misskiptingu í samtímanum. Hvað kemur í ljós þegar við skoðum með gagnrýnum hætti sýnileika og ósýnileika ákveðnar fortíðar og málefna samtímans?
Hvað hefur verið í forgrunni og fyrir hverja?
—————————–
Kristín Loftsdóttir er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa snúið að fjölþættum viðfangsefnum svo sem fordómum, arfleifð nýlendutímans í samtímanum, hvítleika-hugmyndum, aðstæðum vegabréfslausra farandverkamanna og tengslum kreppu og þjóðernislegra sjálfsmynda svo eitthvað sé nefnt. Kristín hefur unnið rannsóknir sínar meðal annars á Íslandi, Belgíu og í Níger í Vestur Afríku, og nýtt sér fjölþættar aðferðir og gögn.
Rannsóknir Kristínar á Íslandi hafa sérstaklega beint sjónum að mikilvægi þess að skoða Ísland í samhengi við sögu kynþáttafordóma og endursköpun þeirra í samtímanum. Þær hafa þannig verið mikilvægar til að kynna sjónarhorn eftirlendufræða og varpa upp gagnrýnum spurningum um „hvítleika“.
————————-
Um sýninguna Að rekja brot:
Að rekja brot er samsýning listamanna frá frá Íslandi, Mexikó, Pakistan, Bandaríkjunum, Grænlandi, Danmörku, Noregi, Nígeríu og Finnlandi.
Verkin þeirra eiga það sameiginlegt að rannsaka flókna sögu nýlendu- og kynþáttaofbeldis, gagnrýna og endurskrifa frásagnir um kúgun og eignarnám og endurheimta hugtök eins og yfirvald og fórnarlamb.
Markmið sýningarinnar er að vera uppspretta samtals og rýna í sögur um landnám, þrælahald, kynþáttafordóma, kúgun og eignarnám.
Tracing Fragments varpar ljósi á frásagnir þeirra sem kúgaðir voru og gefa þeim rödd til að skrifa sína eigin sögu í gegnum ólíka listræna miðla.
Listafólk: Abdullah Qureshi, Frida Orupabo, Hugo Llanes, Inuuteq Storch, Kathy Clark og Sasha Huber.
Sýningarstjóri: Daría Sól Andrews