„Það er okkur mikið gleðiefni að geta boðið gestum upp á nærandi samveru á þessum yndislega stað sem Guðmundarlundur er. Hópurinn sem stendur að viðburðinum hefur náð að skapa einstaka stemmingu í fullkomnu samspili við náttúruna.“ sagði Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri á sunnudaginn, en hún mætti ásamt fjölskyldumeðlimum til þess að njóta í Jólalundinum.
Þetta er í fyrsta skipti sem Guðmundarlundi hefur verið breytt í Jólalund fyrir Kópavogsbúa og gesti.
Anna Bergljót Thorarensen sem fer fyrir hópnum sem stendur að Jólalundinum segist vera hæstánægð með móttökurnar og hlakkar til komandi sunnudaga. . „Við erum farin að þekkja Guðmundarlundinn ansi vel eftir að hafa verið hér síðustu ár með jólasýninguna okkar, en það er alltaf jafn gaman að vera hér. Hann Kristinn hjá Skógræktarfélaginu tekur okkur alltaf svo vel, svo eru bara svo miklir möguleikar sem felast í svæðinu.“ Anna Bergljót fer fyrir Leikhópnum Lottu og Jólasveinar.is en þau eiga heiðurinn að uppsetningu og hönnuninni. Auk þessa sýna þau verkið Ævintýri í Jólaskógi á nær hverjum degi til 27. desember. Það fer hver að verða síðastur að næla sér í miða á þá frábæru sýningu.
Dagskráin er fjölbreytt en miðar öll að því að fjölskyldan komi saman og njóti samvista í náttúrunni. Dagskráin er endurtekin yfir opnunartíma svo enginn þarf að vera hæddur um að komast ekki að eða missa af.
Ásdís sagði það vera forréttindi að hafa aðgang að þessari fallegu náttúru og þau fjölskyldan hafi skemmt sér mjög vel. „Mikil spenna myndaðist hjá mínu fólki að ráða gátuna í ratleiknum og höfðum við fullorðna fólkið vart undan að fylgja eftir. Sjálfri fannst mér jólaballið vera hápunkturinn, hún Rófa er þeim gáfum gædd að vekja lukku hjá ungum jafnt sem öldnum. Ég hvet því alla að heimsækja Jólalundinn, fá jólastemminguna beint í æð í ferska loftinu.
Rófa, Hurðaskellir og allir vinir þeirra hlakka til að sjá sem flesta, bara muna að klæða sig eftir veðri, vera vel skóuð og umfram allt í jólaskapi eða að minnsta kosti fara heim í jólaskapi.
Dagskráin fer fram 3. 10. og 17 desember frá kl. 13 – 15.
Hér má finna dagskrána.