MOLTA
Rætur, rotnun, umrót.
MOLTA er alltumlykjandi og þverfagleg innsetning og lifandi sýning. Listamaðurinn Rósa Ómarsdóttir býr til vistkerfi þar sem náttúrulegir ferlar umbreyta rýminu. Innsetningin bráðnar, lekur, brotnar niður, vex, blandast saman og gufar upp. Molta er myndlíking. Molta er í senn jarðvegur niðurbrots og frjósemi, þar sem úrelt og úrsérgengin fyrirbæri brotna niður og ný spretta upp. Í MOLTU skoðar Rósa hvernig vistkerfið er óstöðugt og tekur sífelldum breytingum. Hún kannar mörk manns, umhverfis og tækni þar sem allt hefur áhrif hvort á annað. Menn sameinast sveppum, plastögnum og rafeindum. Hvað sprettur upp úr moltunni?
Á opnunartíma safnsins geta sýningargestir gengið frjálslega um innsetninguna, dvalið í henni og haft gagnvirkt áhrif á hana.
Eftir lokun, á auglýstum kvöldum, á sér stað lifandi sýning yfir heilt kvöld. Verkið er samstarfsverkefni Rósu og Íslenska Dansflokksins og tekur fjórar klukkustundir í flutningi. Þar veltir höfundur fyrir sér tengslum á milli dans, kóreógrafíu, tónlistar, myndlistar, líkama og efna, áhorfenda og flytjenda.
Áhorfendum er boðið í lautarferð innan í innsetningunni. Þar mæta þau flytjendum verksins sem birtast sem skúlptúrar, verur og dýr, náttúra eða öfl og eru hluti af vistkerfi MOLTU. Um er að ræða allsherjar upplifun. Áhorfendum býðst staður og stund til að upplifa síbreytilegt rými, rætur, rotnun og umrót. Verkið er upplifun á umbreytingu og tíma. Stundum eru breytingarnar svo hægar að þær varla sjást, en stundum svo snöggar að þær fóru framhjá. Áhorfendum er boðið að dvelja, horfa, hlusta, vera, hanga, borða, drekka og hvíla sig á meðan menn og umhverfi umbreytast. Ranka svo við sér og sjá umbreytingu umhverfisins, horfa meira, hlusta, skynja, taka sér hlé, koma aftur í nýtt rými sem eftir rúmlega fjóra klukkutíma hefur hugsanlega orðið hluti af þeim sjálfum.
Á sýningunni verður hægt að fá mat og drykk framleitt af matreiðslumeistaranum Kjartani Óla Guðmundssyni þar sem vistkerfi, umhverfi og flytjendurnir sjálfir eru hluti af því sem er á boðstólnum.
MOLTA var unnin í nánu samstarfi við allt listræna teymið.
Listrænt teymi
Listrænn stjóri og danshöfundur: Rósa Ómarsdóttir.
Flytjendur: Saga Sigurðardóttir, Karítas Lotta Tuliníus, Erna Gunnarsdóttir, Andrean Sigurgeirsson og Gabriele Bagdonaite.
Tónlist: Nicolai Johansen.
Dramatúrg: Ásrún Magnúsdóttir.
Búningar: Kristjana Reynisdóttir
Innsetningar teymi: Rósa Ómarsdóttir, Guðný Hrund Sigurðardóttir, Hákon Pálsson og Valdimar Jóhansson.
Listræn ráðgjöf við innsetningu: Guðný Hrund Sigurðardóttir.
Ljós: Hákon Pálsson.
Tæknistjóri: Valdimar Jóhannsson.
Starfsnemar: Olivia Pyszko og Júlía Kolbrún Sigurðardóttir.
Verkefnið er styrkt af Sviðslistasjóði, Reykjavíkurborg, Nordisk Kulturfond, Landsbankanum og lista- og menningarsjóði Kópavogsbæjar.
Með-framleiðendur: Íslenski Dansflokkurinn, Reykjavík Dance Festival, Dansehallerne Kaupmannahöfn, C-takt Belgíu.
Vinnustofur: WpZimmer Belgíu og Dansverkstæðið.
Rósa Ómarsdóttir er danshöfundur sem vinnur þvert á ólíka miðla. Í verkum sínum kannar Rósa samskipti manns og náttúru, í leit að ómannhverfum frásögnum. Hún leitast við að skapa auðugt vistkerfi sem sameinar manneskjur, hluti og ósýnilega krafta. Verk hennar eru þverfagleg í eðli sínu og flétta saman kóreógrafíu, lifandi hljóðmyndir og myndlist, með femínískri nálgun á dramatúrgíu sem felur í sér varnarleysi og flæði.
Verk Rósu hafa verið sýnd á fjölmörgum hátíðum, leikhúsum, galleríum og listasöfnum víðsvegar um Evrópu. Þar má nefna LOFFT Theater Leipzig, Museum Dhont’ Dhaenes í Ghent, Beursschouwburg Brussels, Flæmska þinghúsið, Homo Novus Festival Lettlandi, MIR festival Aþenu og MDT Stokkhólmi. Rósa hefur einnig hlotið hálfs árs vinnustofu hjá Akademie Schloss Solitude í Stuttgart og hjá Chaillot Theatre National de la Danse í París, auk fjölda minni vinnustofa úti um allan heim. Verk hennar hafa hlotið fjölda tilnefninga til Grímunnar og verið verðlaunuð fyrir hljóðmynd og sem danshöfundur ársins.
Ljósmynd: Hákon Pálsson.
Fyrirsæta: Karitas Lotta Tulinius.
Hér má kaupa miða á sýningarnar: Tix.is – MOLTA