Kópavogsvogsbær, sem fagnar 70 ára afmæli á árinu og Össur Geirsson heiðurslistamaður Kópavogs bjóða til stórtónleika með Skólahljómsveit Kópavogs þar sem flutt verða verk frá 30 ára ferli Össurar. Tónleikarnir eru í Norðurljósasal Hörpu kl. 17:00 sunnudaginn 16. mars.
Verkin sem flutt verða eru öll útsett af Össuri.
Össur mun stýra Skólahljómsveit Kópavogs sem skipuð er 60 hljóðfæraleikurum á aldrinum 13 – 20. Á tónleikunum fer Össur yfir 30 ára feril sinn sem útsetjari og leikur sveitin valin verk frá ýmsum tímabilum. Össur hefur útsett, samið og flutt yfir 500 tónverk á ferli sínum og fá áheyrendur að upplifa þversnið af glæstum ferli hans, en með sanni má segja að Össur sé einn helsti máttarstólpi og áhrifavaldur í tónlistarlífi Kópavogsbúa.
„Að opna undraheima listarinnar fyrir börnum er mikilvægt starf og hugsanlega stundum svolítið vanmetið. Hvort sem um er að ræða tónlist, ritlist eða myndlist þá hef ég þá trú að listirnar gefi okkur góða og fallega sýn á lífið og allt það góða sem það hefur að bjóða,“ sagði Össur þegar hann tók við heiðursnafnbótinni sl. september og bætti við að tónlistaruppeldi væri það sem stæði honum næst.
„Mér finnst svo mikilvægt að kynna alls konar tónlist fyrir börnum, bæði nýja og gamla tónlist, gæðatónlist sama hvaða tónlistarstíl við erum að tala um. Það er gaman að koma saman í hljómsveit og búa til tónlist og bæði upplífgandi og gefandi að finna góðan samhljóm og vita að maður á sinn þátt í að framkalla þennan galdur. Þetta er eitthvað sem allir tónlistarnemendur taka með sér út í lífið, hvort sem þau leggja tónlistina fyrir sig sem starf eða áhugamál.“
Frítt er inn á tónleikana, öll velkomin á meðan húsrúm leyfir.