Verið hjartanlega velkomin á leiðsögn um sýningu Guðrúnar Bergsdóttur með Margréti Norðdahl laugardaginn 24. maí kl. 14:00 í Gerðarsafni.
Margrét og Guðrún Bergsdóttir unnu saman um árabil og Margrét sýningarstýrði fjölda sýninga á verkum Guðrúnar Bergsdóttur frá 2007 til 2022. MA verkefni hennar frá LHÍ var eigindleg rannsókn á stöðu listafólks með þroskahömlun þar sem Guðrún Bergsdóttir var einn viðmælanda. Margrét ritaði texta um Guðrúnu og feril hennar í nýútkominni bók um Guðrúnu og verk hennar.
Margrét M. Norðdahl er myndlistarkona, kennari og listrænn stjórnandi með yfir tuttugu ára reynslu af myndlist, menntun og menningarstjórnun. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum og gjörningum á Íslandi og erlendis. Hún vinnur með teikningar, málverk, innsetningar og ýmsa miðla og verk hennar fjalla gjarnan um mynstur í samskiptum og hegðun fólks, sýnilegum og ósýnilegum reglum samfélagsins, fegurð hversdagsins og leitina að kyrrð. Margrét er með BA í myndlist og MA í listkennslu frá Listaháskóla Íslands og hefur starfað víða sem kennari, m.a. við LHÍ, Myndlistaskólann í Reykjavík og hjá Fjölmennt.
Hún er stofnandi og framkvæmdastýra Listvinnzlunnar, listmiðstöðvar og stýrði hátíðinni List án landamæra um árabil. Margrét hefur einnig setið í stjórnum Listahátíðar í Reykjavík, Safnasafnsins og List án landamæra, auk þess að sinna sýningarstjórn, ráðgjöf og fyrirlestrahaldi. Fyrir störf sín hefur hún hlotið margvíslegar viðurkenningar. Í allri sinni vinnu sameinar hún listræna sköpun, samfélagslega meðvitund og djúpa trú á mikilvægi aðgengis og þátttöku allra í menningu og listum.
Margrét býr og starfar í Reykjavík og er með vinnustofu í miðborginni.
Aðgöngumiði að safninu gildir, frítt fyrir árskortshafa.