Tónleikarnir leiða hlustendur inn í heillandi hljóðheim þar sem ólík tímabil, persónur og litbrigði fá að blómstra hvert á sínu sviði. Dagskráin spannar allt frá íslenskri tónsmíð til franskrar kammertónlistar og nútímalegs náttúrudans og gefur flautunni tækifæri til að sýna fullan breytileika sinn, frá barnslegri leikgleði til djúprar ljóðlistar.
Kvöldið hefst með Tónamínútum Atla Heimis Sveinssonar, þar sem þrjár stuttar myndir, Karlatónar, Kvennatónar og Barnatónar skapa litríkt og skýrt mótað landslag af karakter og hreyfingu. Hér birtist bæði leikandi mýkt og styrkur, þar sem hver stemning á sinn sértæka hljóðblæ.
Á eftir tekur við A Day in Nature eftir Corentin Boissier, flautusónata sem fangar heilan dag í náttúrunni. Verkið leiðir hlustandann frá ljómandi morgni yfir í lifandi miðdag og mjúka kvöldró, með hljóðmyndum sem eru myndrænar, litríkar og uppfullar af ferskleika. Hér fær tónlistin að segja sögu sem bæði hreyfir við og gleður.
Tónleikunum lýkur með töfrandi verki Claude Debussy, Sónötu fyrir flautu, víólu og hörpu, einu af síðustu kammerverkum meistara franska módernismans. Hér mætast þrír hljóðheimar, loft, jörð og glitrandi yfirborð, saman mynda þeir ljóðrænan dans sem er bæði dularfullur og fagur. Sónatan flæðir áfram í léttum sveigjum og opnar fyrir heim ljóss, skugga og mjúkrar nærveru.
Á undan tónleikunum verður boðið upp á tónleikaspjall klukkan 13:00. Aðgangur á spjallið er ókeypis og öll velkomin

Katie Buckley hefur lokið Masters námi í hörpuleik frá Eastman School of Music, þar sem hún lærði undir handleiðslu Kathleen Bride. Árið 2005 var hún ráðin til starfa sem fyrsti hörpuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Katie er einn stofnenda Duo Harpverk ásamt slagverksleikaranum Frank Aarnink. Fjölbreyttur tónlistarferill Katie nær út fyrir tónleikasviðið. Hún hefur tekið upp verk fyrir Netflix og Disney og unnið með fjölmörgum virtum íslenskum listamönnum, þar á meðal Daníel Bjarnason, Anna Þorvaldsdóttir, Gabriel Ólafs og Björk. Framlag hennar til nútímatónlistar og klassískrar tónlistar heldur áfram að gera hana að eftirsóttum tónlistarmanni.

Sigríður Hjördís Önnudóttir lauk Bachelor námi sínu árið 2017 frá Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Hallfríðar Ólafsdóttur og Emilíu Rósar Sigfúsdóttur. Á námsárum hennar á íslandi var hún einn sigurvegara í keppninni „ungir einleikarar“ og einleikarakeppni Tónlistarskóla Reykjavíkur og spilaði í kjölfarið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og strengjasveit Tónlistarskóla Reykjavíkur. Sigríður lauk Mastersnámi sínu árið 2024 undir handleiðslu Lornu McGhee í Carnegie Mellon University, hún flutti heim sama ár og hóf störf sem flautukennari og einnig reglulegur afleysingamaður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Þórunn Ósk Marinósdóttir er leiðari víóludeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Hún er fædd og uppalin á Akureyri þar sem hún stundaði fiðlunám, lengst af hjá Lilju Hjaltadóttur. Hún lauk Mastersprófi í víóluleik við Konunglega Tónlistarháskólann í Brussel undir handleiðslu Ervin Schiffer. Í Belgíu var hún leiðari víóludeildar kammerhljómsveitarinnar Prima la Musica undir stjórn Dirks Vermeulen og um tíma meðlimur í I Fiamminghi undir stjórn Rudolfs Werthens. Hún hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Prima la Musica, Kammersveit Reykjavíkur, Caput og Sumida Triphony Hall orchestra í Tokýó.
Þórunn kennir víóluleik og kammermúsík við Listaháskóla Íslands og við Alþjóðlegu Tónlistarakademíuna í Hörpu (HIMA).
Þórunn spilar mikið af kammermúsík og er reglulegur gestur Kammermúsíkklúbbsins og tónlistarhátíða í Reykjavík og víðar. Árið 2012 stofnaði hún Strokkvartettinn Sigga ásamt félögum sínum í kvartettinum en hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2018 sem flytjandi ársins og aftur 2023 fyrir hljóðrit sín af strengjakvartettum Atla Heimis Sveinssonar.
Plötuútgáfan Smekkleysa hefur gefið út hljóðritanir þar sem Þórunn fer með einleikshlutverkið í víólukonsertinum “Ombra” ásamt Kammersveit Reykjavíkur og “Dagbókarbrot” fyrir víólu og píanó hvoru tveggja eftir Hafliða Hallgrímsson. Hún hefur einnig spilað inn á fjölda kammermúsík hljóðritana, oftast undir merkjum Kammersveitar Reykjavíkur.
Þórunn Ósk hefur verið listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar frá árinu 2021.

Þóra Kristín Gunnnarsdóttir hóf tónlistarnám sitt á Akureyri hjá Dýrleifu Bjarnadóttur og lærði síðar hjá Peter Máté við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hún lauk meistaragráðu í píanókennslu og píanóleik með kammertónlist sem aukagrein frá tónlistarháskólanum í Luzern árið 2017. Helstu kennarar hennar þar voru Yvonne Lang og Edward Rushton. Árið 2020 lauk hún annarri meistaragráðu í kammertónlist og meðleik frá listaháskólanum í Zürich, þar sem aðalkennari hennar var píanóleikarinn Friedemann Rieger. Hún sótti þar einnig reglulega tíma í ljóðameðleik hjá m.a. Christoph Berner og kammertónlist hjá Eckart Heiligers og fleirum. Hún hefur sótt masterklassnámskeið hjá m.a. Thomas Hampson, Simon Lepper, Joseph Breinl og Ewa Kupiec.
Á undan tónleikunum verður boðið upp á tónleikaspjall klukkan 13:00. Aðgangur á spjallið er ókeypis og öll velkomin.
























