Á opnunarviðburði VÖKU þjóðlistahátíðar 2025 leiðir Ragnar Ingi Aðalsteinsson gestum inn í létt og fræðandi spjall um bragfræði og vísnagerð, með fjölmörgum skemmtilegum dæmum.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson er fróðleiksmaður á ljóð og sögur og hefur haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða um íslenska bragfræði. Hann er með doktorsgráður í bókmenntum með sértaka áherslu á bragfræði og hefur kennt fræðin í Háskóla Íslands og fjölmörgum öðrum skólum. Hann hefur gefið út margar kennslubækur um bragfræði og bækur sem tengjast íslenskri bókmenntasögu. Ragnar Ingi hefur einnig verið iðinn við að skrifa bundið og óbundið mál, gefið út ljóðabækur og stutt dyggilega við útgáfu á ljóðum eftir önnur skáld. Í dag starfar Ragnar Ingi sem ritstjóri. Hann gefur úr tímaritið Stuðlaberg, helgað hefðbundinni ljóðlist og bragfræði.
VAKA þjóðlistahátíð 2025 fagnar lifandi hefðum og menningararfi dagana 15. – 21. september í Kópavogi og Reykjavík með fjölbreyttum viðburðum fyrir alla fjölskylduna.
Á VÖKU kemur margt fremsta þjóðlistafólk landsins fram. Þar má hlýða á marga helstu kvæðamenn landsins, njóta þjóðtónlistar frá Íslandi, Noregi og víðar, kynna sér íslenskt handverk sem og sækja erindi og fjölbreyttar vinnustofur í þjóðdönsum, kveðskap, handverki, hljóðfæraleik og danstónlist frá Íslandi, Noregi og Kólumbíu svo eitthvað sé nefnt. Áhersla er lögð á fjölbreytta samveru í formi söngs, dans og samspils.
Allar nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á heimasíðu hátíðarinnar, www.vakareykjavik.is