Sígildir söngvasveigar og þjóðlög ólíkra heima í túlkun mezzósópransöngkonunnar Hildigunnar Einarsdóttur og Guðrúnar Dalíu Salómonsdóttur, píanóleikara.
Hér hljóma sjaldheyrðir en áhrifaríkir lagaflokkar eftir Benjamin Britten, Þorkel Sigurbjörnsson og Maurice Ravel auk þjóðlagaútsetninga úr ýmsum áttum.
Söngvasveigur Brittens, Charm of Lullabies (1947) hverfist um nóttina og býr yfir víðfeðmu litrófi og mögnuðum andstæðum en ljóðin eru sótt til nokkurra höfuðskálda Bretlandseyja svo sem William Blake og Robert Burns.
Lagaflokkur Þorkels Sigurbjörnssonar, Níu ljóð úr Þorpinu, var frumfluttur af Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og tónskáldinu á Listahátíð í Reykjavík 1982. Yrkisefnið er að mestu sótt í tímamótaverkið Þorpið (1946) eftir Jón úr Vör þar sem dregnar eru upp ljóslifandi myndir af lífsbaráttu í íslensku sjávarþorpi í kringum kreppuárin. Svipmikil grísk þjóðlög og þjóðvísur eru meginuppistaðan í Fimm, vinsælum, grískum þjóðlögum (1907) eftir Maurice Ravel en á tónleikunum hljóma einnig tregafull og grípandi þjóðlög, íslensk og ensk, í útsetningum Jórunnar Viðar, Þorkels Sigurbjörnssonar og Benjamin Britten.
***
Hildigunnur Einarsdóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur og Signýjar Sæmundsdóttur og stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og Hollandi hjá Janet Williams og Jóni Þorsteinssyni. Hildigunnur hefur einnig lokið B.A. prófi í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands hvar hún sótti söngtíma hjá Hlín Pétursdóttur Behrens. Hildigunnur hefur verið áberandi í kirkjutónlistarsenunni og sungið einsöngshlutverk í verkum á borð við Messías og Judas Maccabeus eftir Händel, Mattheusarpassíu, Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríuna eftir Bach og Guðbrandsmessu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur. Hildigunnur hefur einnig sungið einsöng með sveitum svo sem Sinfóníuhljómsveit Íslands, Barokksveitinni Brák, Caput og Kammersveit Reykjavíkur og frumflutt fjölda verka m.a. eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur, John Speight og Kolbein Bjarnason. Hildigunnur hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir söng ársins í flokknum Sígild og samtímatónlist.
***
Guðrún Dalía Salómonsdóttir stundaði píanónám við Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónlistarháskólana í Stuttgart og í París. Hún er afar virk í íslensku tónlistarlífi og hefur látið mikið til sín taka, ekki síst á sviði ljóðasöngs en hún hefur starfað með fjölda ljóðasöngvara og tekist á við fjölbreytt verkefni. Guðrún Dalía kemur reglulega fram með hljómsveitum svo sem Kammersveit Reykjavíkur og Sinfóníuhljómsveit Ísland og hefur frumflutt fjölda verka eftir íslensk tónskáld, meðal annars á Norrænum músíkdögum og Myrkum músíkdögum. Hún hefur leikið einleik með Ungfóníu og á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og út hafa komið geisladiskar með leik hennar með sönglögum Jórunnar Viðar og Karls O. Runólfssonar. Guðrún Dalía hefur hlotið fjölda styrkja og viðurkenninga, þar á meðal 1. verðlaun í píanókeppni EPTA.
Efnisskrá:
Jórunn Viðar (1918 – 2017)
Syrpa af íslenskum þulum og þululögum
Við skulum róa
Stígur hann Lalli
Hvar er Jón Jakobsson?
Krummavísa
Bí, bí og blaka
Barnagælur
Benjamin Britten (1913 – 1976)
A Charm of Lullabies
A Cradle Song (William Blake)
The Highland Balou (Robert Burns)
Sephestia’s Lullaby (Robert Greene)
A Charm (Thomas Randolph)
The Nurse’s Song (John Philip)
Tvær þjóðlagaútsetningar eftir Benjamin Britten
The Ash Grove (Velskt þjóðlag)
The Last Rose of Summer (Írskt þjóðlag)
Maurice Ravel
Cinq Melodies Populaires Grecques
Chanson de la mariée
Là-bas, vers l’église
Quel galant m’est comparable
Chanson des cueilleuses de lentisques
Tout gai !
Hlé
Þorkell Sigurbjörnsson (1938-2013)
Níu lög úr Þorpinu (Jón úr Vör)
Þorkell Sigurbjörnsson
Úr 14 íslenskum þjóðlögum
Nátttröllið
Sjá nú er liðin…
Döggling og drottningen
Ólafur reið með björgum fram
Grýla kallar á börnin sín
Gimbillinn mælti
Ljósið kemur
Kærustu hlýðið
Krummi svaf í klettagjá
Á undan tónleikunum verður boðið upp á tónleikaspjall klukkan 13:00. Aðgangur á spjallið er ókeypis og öll velkomin.
Tónleikarnir eru styrktir af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.