Um MEKÓ

Í Kópavogi er að finna öflugt menningarlíf. Í hjarta bæjarfélagsins er að finna fimm menningarstofnanir bæjarins; Salinn, Gerðarsafn, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Bókasafn Kópavogs og Héraðsskjalasafn Kópavogs.

MEKÓ stendur fyrir Menningu í Kópavogi og endurspeglar menningarstefnu Kópavogsbæjar sem felur í sér þrjár stefnuáherslur.

1. Kópavogsbær leggur áherslu á að menningarstarf sé aðgengilegt öllum bæjarbúum.

2. Kópavogsbær stendur vörð um sérstöðu og faglegt starf menningarhúsa bæjarfélagsins.

3. Kópavogsbær leggur áherslu á víðtækt samstarf við bæjarbúa, svið
og deildir bæjarins og lista-, fræði-og vísindamenn úr ólíkum áttum.

 

Menningarstefna Kópavogsbæjar grundvallast á heildarstefnu Kópavogsbæjar
sem samanstendur af hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni. Við gerð menningarstefnunnar var tekið mið af öðrum stefnum bæjarins og hún er birt á vef Kópavogsbæjar og vefsíðum menningarhúsa bæjarins.

Menningarstefnan var unnin í samstarfi lista- og menningarráðs og starfsmanna menningarmála. Stefnan var samþykkt af lista-og menningarráði og lögð fyrir nefndir og ráð allra sviða. Drög stefnunnar voru sett í samráðsgátt fyrir íbúa þar sem óskað var eftir ábendingum. Stefnan var samþykkt á fundi bæjarstjórnar
þann 5. maí 2022.

Árskýrslur menningarmála í kópavogi

Menningarmálaflokkur Kópavogsbæjar gefur árlega út ítarlega skýrslu um starfsemi málaflokksins á liðnu ári.

Skýrslum þessum er ætlað að fanga menningarstarfsemi Kópavogsbæjar hverju sinni, líta yfir farinn veg og setja raunhæf markmið.

Ítarlega er farið yfir starfsemi menningarstofnana Kópavogsbæjar í skýrslum þessum.

MENNINGARTÍMARIT MEKÓ

Í byrjun september 2020 gaf menningarmálaflokkur Kópavogsbæjar í fyrsta skipti út menningartímarit. 

Tímaritið þótti tilvalin leið til að miðla upplýsingum um menningarstarfið í bæjarfélaginu á skemmtilegan og líflegan hátt. 

Tímaritinu var dreift í öll hús í Kópavogi fyrstu tvö árin en árið 2022 var ákveðið að bjóða fólki að nálgast blaðið á hinum ýmsu stöðum í Kópavogi, þ.á.m. í menningarhúsum bæjarins. 

Ritstjóri tímaritsins er Íris María Stefánsdóttir markaðs- og kynningarstjóri MEKÓ og Brynhildur Björnsdóttir fjölmiðlakona hefur séð um greinaskrif.

MeRKI MEKÓ

Menning í Kópavogi er með eigið firmamerki sem styrkþegar eru beðnir um að setja á kynningarefni verkefna sem styrkt hafa verið.