Barnamenningarhátíð 2022

Á laugardaginn voru húsin hér í Hamraborginni vestan gjár, lögð undir barnamenningu og er óhætt að segja að mikið hafi verið um að vera.
Framlag Náttúrufræðistofunnar snerist um enduruppsetningu á sýningunni Leggjum línurnar í tilefni veður- og loftslagsfræðsluverkefnisins Allra veðra von! sem 300 nemendur í 6. – 9. bekkjum grunnskóla Kópavogs tóku þátt í í aðdraganda Barnamenningarhátíðar í Kópavogi 2022, en sýningin var upphaflega sett upp í nóvember 2021.
Auk sýningarinnar sjálfrar voru settir upp ratleikir bæði innahúss sem utan, auk þess sem Sævar Helgi Bragason kom og hélt fræðsluerindi, sniðið að öllum aldurshópum.
Mikill fjöldi gesta sótti viðburðina sem í boði voru og var almenn ánægja með daginn, bæði hjá gestum og starfsfólki.
Takk fyrir okkur 🙂 
Hér að neðan getur svo að líta hina metnaðarfullu dagskrá Barnamennigarhátíðar í Kópavogi 2022
Söguhetjur ævintýranna | Bókasafn Kópavogs
Sýning á verkum 120 leikskólabarna verður opnuð þann 5. apríl í barnadeild Bókasafns Kópavogs á Barnamenningarhátíð. Sýningin byggir á norrænum ævintýrum og fékkst hugmyndin að sýningunni úr Vatnsdropanum, samstarfsverkefni menningarhúsanna og annarra norræna stofnanna. Í aðdraganda sýningarinnar heimsóttu Arndís Þórarinsdóttir, rithöfundur og Gréta Björg, deildarstjóri barnastarfs nokkra leikskóla í Kópavogi og ræddu um ævintýri, sköpun og mikilvægi ímyndunaraflsins. Hafa börnin síðan skapað sínar eigin ævintýrapersónur og ævintýri sem verða til sýnis á 1. hæð safnsins. Leikskólarnir sem eru með listaverk á sýningunni eru: Álfaheiði, Álfatún, Baugur, Marbakki, Núpur og Urðarhóll. Sýningatími: 5. – 25. apríl.
Smásögur Vatnsdropans | Bókasafn Kópavogs
Sýning á smásögum eftir börn úr 5. bekk í grunnskólum Kópavogs. Smásögurnar sömdu börnin í ritsmiðjum hjá Aðalsteini Ásbergi Sigurðssyni og Aðalsteini Emil Aðalsteinssyni og var smásöguhefti með völdum sögum gefið út í kjölfarið. Í ritsmiðjunum var lagt út frá sagnaheimum H. C. Andersen, Tove Jansson og Astrid Lindgren. Sýningatími: 5. – 25. apríl.
Leggjum línurnar | Náttúrufræðistofa Kópavogs
Verkin á sýningunni voru unnin af um 400 nemendum í 10. bekkjum í Kópavogi sem tóku þátt í samnefndu loftslagsfræðsluverkefni Náttúrufræðistofunnar, sem styrkt var af Loftslagssjóði, á haustönn 2021. Nemendur gerðu sínar eigin veðurmælingar í nærumhverfi, unnu s.k. loftslagslínur (e. climate stripes) fyrir mismunandi lönd í heiminum og rýndu ýmsa félags-, efnahags- og umhverfislega þætti í rannsóknarlöndum sínum, sem þeir síðan tengdu heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sýningatími: 5. – 9. apríl.
Sólarprent | Gerðarsafn
Sýning á ljósmyndaverkum eftir ríflega 100 börn úr 1. bekk Kársnesskóla og Smáraskóla. Verkin unnu þau í smiðjum hjá Hjördísi Höllu Eyþórsdóttur í Gerðarsafni þar sem unnið var með bláþrykk eða sólarprent. Sólarprent er elsta og einfaldasta ljósmyndaaðferðin þar sem sólarljósið eða útfjólublátt ljós framkallar myndina. Ljósnæmur vökvi er málaður á myndflöt svo sem pappír eða bómull sem svo er þurrkaður. Þurrkaðar jurtir, úrklippur, pappír og fleira eru síðan lagðir ofan á myndflötinn og móta myndverkið. Þá er myndverkið lýst með UV ljósi. Ljósmyndin er svo framkölluð með köldu vatni og sett í þurrk. Verkin unnin í Barnamenningarviku, dagana 4.-8. apríl. Sýningatími: 9. – 10. apríl.
Upptakturinn | Kaldalón, Harpa

Með Upptaktinum, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, er ungu fólki gefið tækifæri til að senda inn tónsmíð og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með listnemum og listamönnum. Kópavogsbær er stoltur þátttakandi verkefnisins. Á tónleikum í Kaldalóni, Hörpu klukkan 17 verða frumflutt fjórtán splunkuný tónverk eftir kornung tónskáld. Úr Kópavogi koma Elvar Sindri Guðmundsson, 12 ára og Erna María Helgadóttir, 15 ára, en bæði stunda nám við Salaskóla.
Útgáfuhóf Vatnsdropans | Bókasafn Kópavogs
Útgáfuhóf á smásögum eftir 5. bekkinga í grunnskólum Kópavogs. Smásögurnar sömdu börnin í ritsmiðjum hjá Aðalsteini Ásbergi Sigurðssyni og Aðalsteini Emil Aðalsteinssyni og var smásöguhefti með völdum sögum gefið út í kjölfarið. Í ritsmiðjunum var lagt út frá sagnaheimum H. C. Andersen, Tove Jansson og Astrid Lindgren.
11:00 – 13:00
Páskaföndur | Lindasafn
Páskaföndur á Lindasafni þar sem unnið verður með glaðlegt pappírsskraut.
12:00 -12:30
Leikhópurinn Lotta | Bókasafn Kópavogs
Ævintýrapersónur úr ævintýraskóginum bregða á leik. Söngur, sprell og fjör fyrir allan aldur.
12:30 – 12:45
Allra veðra von! | Fræðslufjör með Sævari Helga | Náttúrufræðistofa Kópavogs
Líflegt spjall fyrir alla fjölskylduna um veður og loftslag.
12:45-13:00
Hér á ég heima | Salurinn
Barnakórar úr Hörðuvallaskóla, Kársnesskóla og Smáraskóla syngja saman um frið á jörð. Stjórnendur: Álfheiður Björgvinsdóttir, Ása Valgerður Sigurðardóttir, Ásta Magnúsdóttir og Þóra Marteinsdóttir.
13:00-13:15
Barnakór Smáraskóla | Bókasafn Kópavogs
Lög tengd náttúru, ævintýrum og friði. Stjórnandi: Ásta Magnúsdóttir.
13:00 – 15:00
Sjóndeildarhringurinn er allan hringinn | Gerðarsafn
Grafíksmiðja með Björk Viggósdóttur fyrir alla fjölskylduna.
13:15 – 13:30
Skólakór Hörðuvallaskóla | Salurinn
Íslensk og erlend lög tengd náttúru, ævintýrum og friði. Stjórnandi: Ása Valgerður Sigurðardóttir.

13:30 – 13:45
Skólakór Kárness | Gerðarsafn
Þúsaldarljóð Tryggva M. Baldvinssonar við ljóð Sveinbjarnar I. Baldvinssonar. Stjórnandi: Álfheiður Björgvinsdóttir.
13:30 – 13:45
Allra veðra von! | Fræðslufjör með Sævari Helga | Náttúrufræðistofa Kópavogs
Líflegt spjall fyrir alla fjölskylduna um snjallar loftslagslausnir.

13:45 – 14:00
Marimbasveit Smáraskóla | Fordyri Salarins
Fjörugir marimbutónar. Stjórnandi: Ásta Magnúsdóttir.
14:00 – 14:30
Búkolla | Salurinn
Frumflutningur á nýrri tónlist Gunnars Andreas Kristinssonar við sígilt ævintýri. Flytjendur: Huld Óskarsdóttir, sögumaður, ásamt kammersveit.
14:30 – 15:00
Dans&kúltúr | Fordyri Salarins
Fjörugt danspartý með Friðriki Agna og Önnu Claessen.
15:00-16:00
Örsögusamkeppni Vatnsdropans | Bókasafn Kópavogs
Heppinn þátttakandi gæti unnið ferð á H.C. Andersen safnið í Odense, Danmörku.
15:30-16:00
Hvassviðri| Salurinn
Hljómsveitin Hvassvirði flytur nokkra vel valda slagara. Sveitina skipa Andri Snær Valdimarsson, píanó og kassagítar, Guðmundur Daníel Erlendsson, söngur og hljómborð, Hrafnkell Daði Vignisson, rafgítar og bakraddir, Embla Björg Sigurðardóttir – Söngur, kassagítar, píanó, Jakob Freyr Einarsson, rafbassi og Gústav Nilsson, trommur.

16:00-16:30
Nordjysk Pigekor & Skólakór Kárness| Kópavogskirkja
Sameiginlegir tónleikar með norrænum sönglögum fyrir barnakóra.

Á Náttúrufræðistofu og Bókasafni verður boðið upp á splunkunýja ratleiki og þrautaleiki:

Allra veðra von! | Náttúrufræðistofa Kópavogs
Í aðdraganda Barnamenningarhátíðar í Kópavogi komu 300 nemendur í 6. – 9. bekkjum grunnskóla Kópavogs í heimsókn á Náttúrufræðistofuna og tóku þátt í veður- og loftslagsfræðsluverkefninu Allra veðra von! Á uppskerudegi hátíðarinnar gefst gestum tækifæri á að spreyta sig á leikjum og þrautum verkefnisins, en á útisvæði verður að finna líflegan ratleik þar sem markmiðið er að finna falda veðurþætti sem þar lúra á víð og dreif. Innandyra má síðan leita fjölbreyttra, jákvæðra, og stundum óvenjulegra, loftslagslausna í völundarhúsi safnsins. Þrautalausnum má skila í lukkukassa og heppnir þátttakendur gætu átt von á góðum glaðningi!
Heimur ævintýranna| Bókasafn Kópavogs
Skemmtilegur ratleikur fyrir alla fjölskylduna um heim ævintýranna. Ratleikurinn teygir sig um allt Bókasafnið og fléttast í kringum sígild Grimms-ævintýri, íslenskar þjóðsögur og fantasíuheima Harry Potter og Hungurleikanna. Ratleikurinn stendur yfir alla Barnamenningarvikuna dagana 5. – 9. apríl á Bókasafni Kópavogs. Dregið verður úr réttum svörum og þrjú heppin fá vinning.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

02
apr
Bókasafn Kópavogs
10:00

Hannyrðaklúbburinn Garn og gaman

03
apr
Bókasafn Kópavogs
14:00

Hannyrðaklúbburinn Kaðlín

03
apr
Bókasafn Kópavogs
16:00

Bókmenntaklúbburinn Hananú!

03
apr
Bókasafn Kópavogs
12:15

Leslyndi með Fríðu Ísberg

04
apr
Salurinn
20:30

Páll Óskar

04
apr
Bókasafn Kópavogs
15:00

Lesið á milli línanna

04
apr
Bókasafn Kópavogs
10:00

Sjálfsmildi

04
apr
Bókasafn Kópavogs
17:00

Vorverkin í garðinum

05
apr
Bókasafn Kópavogs
13:00

Hugleiðsla

06
apr
Bókasafn Kópavogs
11:30

Lesið fyrir hunda

06
apr
Náttúrufræðistofa Kópavogs
13:00

Fuglaskoðun í Kópavogsdal

07
apr
Salurinn
16:00

Hjördís Geirs

Sjá meira

NÝJUSTU FRÉTTIR